easyJet tilkynnir um sölu á flugi frá Manchester

easyJet flýgur til London og Manchester næsta vetur    Mynd  Þórhallur Jónsson
easyJet flýgur til London og Manchester næsta vetur Mynd Þórhallur Jónsson

Breska flugfélagið easyJet tilkynnti í dag að það muni bjóða upp á flug frá bæði London Gatwick og Manchester til Akureyrar næsta vetur. Tilkynningin kemur í kjölfarið á góðum vetri hjá easyJet sem bauð í fyrsta sinn upp á flug frá London til Akureyrar. Búið er að opna fyrir bókanir á þessum flugleiðum á vef easyJet.

Flogið verður á laugardögum og þriðjudögum til Manchester og London Gatwick. Þegar litið er til þjóðerna þeirra ferðamanna sem hafa komið til Íslands á undanförnum áratug, sést að yfir vetrartímann eru Bretar fjölmennastir. Það spilar stórt hlutverk í ákvörðun easyJet að bjóða upp á beint flug til Norðurlands, en í aðalhlutverki er áfangastaðurinn sjálfur og sú trú sem flugfélagið hefur á honum og eftirspurninni fyrir heimsóknum hingað. Að auki hafa heimamenn tekið því fagnandi að geta ferðast í beinu flugi til Bretlands og einnig áfram út í heim með fjölmörgum tengimöguleikum á London Gatwick, sem aukast enn frekar með flugi til Manchester.

„Ekki má slá slöku við í markaðssetningu“

„Flug easyJet frá London Gatwick til Akureyrar hefur gengið mjög vel og fljótlega eftir að það byrjaði, hófst vinna samstarfsaðila við að tryggja flug á fleiri áfangastaði. Það er mikið fagnaðarefni að ákvörðun um flug frá Manchester hafi verið tekin strax, í kjölfarið á góðum fyrsta vetri easyJet hér á Norðurlandi. Það sýnir og sannar að hér höfum við sterkan áfangastað með fjölmörgum tækifærum til áframhaldandi uppbyggingar og að ekki má slá slöku við í markaðssetningu Norðurlands til erlendra markaða þó áfangar á borð við þennan náist. Við höfum séð hversu vel heimamenn hafa tekið í þau millilandaflug sem hafa verið í boði, þeir nýttu sér tækifærið til þægilegra ferða til London eða jafnvel með tengingum lengra. Uppbygging flugs um Akureyrarflugvöll er rétt að byrja og mikil tækifæri framundan á fleiri mörkuðum svo sem Danmörku, Þýskalandi eða Frakklandi,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Ali Gayward, svæðisstjóri easyJet í Bretlandi, segir þessi tíðindi mikið fagnaðarefni.

„Sem eina flugfélagið sem býður beint flug frá Bretlandi til Norðurlands, er það okkur sönn ánægja að bjóða upp á annan valmöguleika í flugi til Akureyrar frá Manchester flugvelli til viðbótar við brottfarir frá London Gatwick. Þetta býður ferðalöngum í bæði Bretlandi og á Norðurlandi fleiri möguleika og tengingar. Við erum staðráðin í að styðja við þróun ferðaþjónustu á Íslandi og hlökkum til að bjóða okkar viðskiptavini velkomna um borð næsta vetur,“ segir Ali Gayward.

„Hér opnast víðari gáttir“

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að fá inn beint millilandaflug um Akureyri og Egilsstaði, í verkefninu Nature Direct í samvinnu Íslandsstofu, Isavia, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar. Sú samvinna og slagkraftur á þátt í því að easyJet hefur nú ákveðið að fljúga til Akureyrar frá tveimur flugvöllum í Bretlandi næsta vetur.

„Beint flug easyJet frá Manchester er mikilvæg viðbót við ferðaframboð til Íslands. Flugið styður beint við stefnu stjórnvalda um að jafna sem mest komur ferðamanna til allra landshluta á öllum árstímum. Er það hryggjarstykkið í öllu markaðsstarfi ferðaþjónustunnar. Bretland er annar stærsti markaður fyrir Íslandsferðir og mikilvægur vetrarmarkaður. Hér opnast víðari gáttir og fleiri sóknarfæri sem við munum nýta. Jákvæð hliðaráhrif eru svo þau að flugið mun auka lífsgæði norðlenskra knattspyrnuáhugamanna, sem er fagnaðarefni,“ segir Pétur Þorsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

„Það eru stórgóðar fréttir að easyJet ætli ekki aðeins að fljúga áfram milli Akureyrar og London næsta vetur heldur einnig að bæta við Manchester sem áfangstað,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Það gekk afskaplega vel að taka á móti flugi easyJet á Akureyrarflugvelli síðasta vetur og nú þegar hyllir undir lok framkvæmda vegna stækkunar flugstöðvarinnar verður ánægjulegt að taka á móti flugvélum félagsins frá bæði London og Manchester næsta vetur.“

Segir í tilkynningu sem barst rétt í þessu


Athugasemdir

Nýjast