Leikfélag Húsavíkur sýnir um þessar mundir Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbörn Egner í leikstjórn Jennýar Láru Arnórsdóttur. Blaðamaður hjá dagskrain.is skellti sér á sýningu í gær sunnudaginn 13. mars.
Sýningin er ákaflega vel heppnuð í alla staði og leikarar sem eru skipaðir frábæru hæfileikafólki á öllum aldri standa sig með prýði. Blaðamaður er af þeirri kynslóð sem man vel eftir Bessa Bjarnasyni í hlutverki Mikka refs og Árna Tryggva í hlutverki Lilla klifurmúsar. Í uppfærslu Leikfélags Húsavíkur er það Jón Ásþór Sigurðarson sem fer með hlutverk Mikka og Ófeigur Óskar Stefánsson með hlutverk Lilla. Það er óhætt að segja að þeir fari báðir á kostum í hlutverkum sínum og eru alls engir eftirbátar hinna föllnu meistara Bessa og Árna. Sömu sögu má raunar segja um aðra leikara og þá sem standa að sýningunni á bak við tjöldin.
Eitt var það þó sem bar af, að öðru ólöstuðu í þessari sýningu. Það er leikmyndin. Það er alls engin hægðarleikur að vinna með jafn lítið svið eins og er í Samkomuhúsinu á Húsavík. Leikfélagið hefur reyndar marg sýnt það og sannað að þar innanborðs er rík uppspretta af hæfileika- og hugmyndaríku fólki. Sviðsmyndin í Dýrunum í Hálsaskógi er ákaflega falleg, en hún hreyfir ekki bara við sjónskynjun áhorfandans heldur einnig lyktarskyni. Sviðið saman stendur af ótal trjám og greinum svo salurinn fyllist notalegum skógarilmi.
Þótt blaðamaður sé að nálgast miðjan aldur þá skemmti hann sér konunglega og líklega ekki síður en öll börnin sem fylgdust sem dáleidd með. Og auðvitað var stöku hróp úr salnum, þar sem börnin vildu vara við refnum, enda er það bara gaman.
Dagskrain.is mælir eindregið með sýningunni, kjörið fyrir foreldra að fara með börnin þar sem allir geta hlegið og skemmt sér saman. EPE