Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti að vísa breyttri gjaldskrá fyrir sorphiðu til umfjöllunar í umhverfisnefnd, þaðan verður hún send til umsagnar í heilbrigðisnefnd til Sambands íslenskra sveitarfélagar og Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Loks var samþykkt að óska eftir því við umhverfisnefnd að haldinn yrði sameiginlegur kynningarfundur nefndarinnar og sveitarstjórnar í janúar tl að kynna þær miklu breytingar sem orðið hafa á sorphirðu og einnig að kynna nýja gjaldskrá fyrir sorphiður og förgun úrgangs í Eyjafjarðrsveit.
Umhverfisnefnd sveitarfélagsins samþykkti nýja gjaldskrá fyrir sorphirðu á fundi sínum á dögunum en þar var tekið upp sérstakt gjald sem fyrirhugað er að leggja á búfjáreigendur vegna kostnaðar við förgun á dýrahræjum. Gjaldið byggir á búfjárfjölda samkvæmt forðagæsluskýrslum. Áður fyrr voru dýraleifarnar urðaðar á Glerárdal, en þegar ákveðið var að urða á Sölvabakka var neitað að taka við dýraleifum héðan og því var ekkert annað úrræði en að senda úrganginn til brennslu á Húsavík, segir Jónas Vigfússon sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit.
Jónas segir að kostnaður sveitarfélagsins hafi auksist verulega vegna þessa og er áætlað að hann nemi um 5,3 milljónum króna á næsta ári að viðbættum virðisaukaskatt. Hann segir að reynt verði að finna ódýrari leiðir til að farga dýraleifum, en að þær liggi ekki á borðinu sem stendur. Samkvæmt tillögunni munu búfjáreigendur bera tæplega helming kostnaðar við förgun hræjanna, en um sé að ræða afföll við búskapinn sem ekki má fara inn í jarðgerðartöðina Moltu sem er í Eyjafjarðarsveit, vegna sjúkdómavarna.
Íþyngjandi fyrir bændur
Benjamín Baldursson bóndi á Ytri-Tjörnum vakti máls á þessu á fundi Bændasamtaka Íslands í Hlíðarbæ í liðinni viku og þótti gjaldið íþyngjandi, það hefði í för með sér auknar álögur á bændur. Gjaldið er sem fyrr segir lagt á eftir búfjárfjölda og ber t.d. þeim sem eiga 101 nautgrip eða fleira að greiða um 145 þúsund krónur á árinu 2012. Sigurgeir Hreinsson á Hríshóli sagði að Eyfirðingar sem heild yrðu að finna lausn á þessu máli. Hvatti hann til þess að leitað yrði leiða til að gera þetta á sem hagkvæmastan hátt og nefndi að því hefði verið varpað fram hvort einhver landeigandi í Eyjafirði væri tilbúinn að taka hluta úr sínu landi og útbúa urðunarstað.