Dusilmenni hent út af vinsemd og virðingu

Heiðurshjónin Katrín Eymundsdóttir og Gísli G. Auðunsson. Sem hentu mér út af svo stakri vinsemd um …
Heiðurshjónin Katrín Eymundsdóttir og Gísli G. Auðunsson. Sem hentu mér út af svo stakri vinsemd um árið. JS

Þáverandi vinstri öfgamaður, ritstjóri Víkurblaðsins, bankaði eitt sinn allslompaður upp á hjá íhaldinu á Húsavík, sem sé Kötu og Gísla lækni, í því skyni að pakka þeim saman í pólitíkinni með gáfulegri rökræðu og þrætubók.

Árangurslaust var þess freistað lengi kvölds. Og þar kom að ritstjórinn var orðinn afar leiðinlegur og vart í húsum hæfur. En margfrægt umburðarlyndið á þessu heimili var samt við sig. Í stað þess að handrota ritstjórann, hringja í lögregluna eða hreinlega henda mannfýlunni út eins og hún átti að sjálfsögðu skilið, valdi Gísli læknir leið sjentilmennskunnar, leit á klukkuna og sagði síðan:

„Jæja, Jóhannes minn. Nú er víst kominn tími til að viðra hundinn og mér þætti afar vænt um ef þú veittir mér aðstoð við það verkefni.“ Ekkert var sjálfsagðara. Og  Gísli og slúbbertinn  röltu út að Pósthúsi með hundinn og til baka, þar sem hvor hvarf til síns heima á Ketilsbrautinni.

„Hvorki fyrr né síðar hefur mér verið hent út úr húsi af svo dæmalausri  vinsemd og virðingu.“ Var haft eftir  ritstjóra Víkurblaðsins. JS

 


Nýjast