„Við prófuðum að halda Dynheimaball í Hofi í fyrra, það var eins konar generalprufa og tókst svona ljómandi vel. Við erum hæst ánægð með að gera það aftur, satt best að segja voru húsnæðisvandræðin svolítið að setja strik í reikninginn áður og í fá hús að venda. Nú höfum við fundið lausn,“ segir Pétur Guðjónsson einn af N3, plötusnúðum sem staðið hafa fyrir Dynheimaböllum á Akureyri undanfarin ár.
Hvergi slegið af í glamúr og glæsileika
Til viðbótar Dynheimaballi í Hofi að kvöldi laugardags um verslunarmannahelgi, 4. ágúst næstkomandi mun hinn ástæli Páll Óskar flytja sig um set, úr Sjallanum þar sem víðfræg Pallaböll hans hafa tryllt lýðinn og koma sér fyrir í Hofi á sunnudagskvöldinu 5. ágúst. Aldurstakmark á Spari-Dynheimaballið verður 30 ár og gert ráð fyrir að gestir mæti í sínu fínasta pússi, diskódress njóta vinsælda þetta kvöld. N3 plötusnúðar sjá um stemninguna það kvöldið.
Á Pallaballið er aldurstakmarkið 22 ár. „Það verður hvergi slegið af í glamúr og glæsileika til að gera þetta fyrsta Pallaball í Hofi að stórkostlegri upplifun,“ segir Pétur.
Barnapíutaxtinn hækkar
Fyrir þá sem ætla sér alls ekki að missa af viðburðinum er rétt að benda á að miðasala hefst í næstu viku, miðvikudaginn 18.júlí. „Við eigum von á góðum viðbrögðum og um að gera að tryggja sér miða með fyrra fallinu,“ segir Pétur og bætir við að gera megi ráð fyrir að taxtinn hjá barnapíum bæjarins verði í hærra lagi þessa helgi.