Dró að sér 26 milljónir frá VMA
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt fyrrverandi fjármálastjóra og bókara Verkmenntaskólans á Akureyri í fimmtán mánaða fangelsi fyrir 26 milljón króna fjárdrátt. Fært þótti að binda tólf mánuði refsingarinnar skilorði. Fjármálastjórinn fyrrverandi er 53 ára kona. Hún var ákærð fyrir fjárdrátt í opinberu starfi, með því að hafa á tímabilinu frá 24. janúar 2005 til 15. apríl 2013, í starfi sínu dregið sér úr sjóðum skólans og notað heimildarlaust í eigin þágu samtals kr. 26.366.281-, með því að millifæra af reikningum skólans yfir á eigin bankareikning, í samtals 138 skipti á ofangreindu tímabili.
Konan játaði skýlaust brot sitt og var litið til þess við ákvörðun refsingar. Brot ákærðu stóð yfir í nokkurn tíma og varðar fjölmörg tilvik. Þá rauf ákærða trúnað með háttsemi sinni og hefur ekki endurgreitt fjármunina. Á hinn bóginn ber að líta til þess að ákærða er með hreint sakavottorð og hún gekkst við brotum sínum greiðlega og skilmerkilega hjá lögreglu og fyrir dómi. Ákærða hefur jafnframt samþykkt að greiða bótakröfu í málinu, en einnig hefur hún lýst yfir iðran, segir í niðurstöðu dómsins.
Þá kemur fram að hún hafi í fyrra greitt tæplega 400 þúsund krónur til baka. Frá þessu er greint á mbl.is.