25. júní, 2007 - 21:15
Fréttir
Sex ára gamall drengur var hætt kominn í Sundlaug Akureyrar skömmu fyrir kvöldmat en sundlaugargestir sáu til drengsins sem var meðvitundarlaus á botni laugarinnar. Drengnum var strax bjargað á land og svo vel vildi til að á staðnum voru tveir menn úr Slökkviliði Akureyrar sem að sjálfsögðu eru þjálfaðir til að bregðast við í tilfellum sem þessum og að auki var einnig sjúkraliði á staðnum. Gekk því bæði hratt og vel að koma drengnum til meðvitundar áður en honum var ekið á slysadeild FSA til eftirlits. Drengurinn var innan um fjölda fólks þegar óhappið átti sér stað en hann fór í laugina með foreldrum sínum.