Draslið í vegkantinum

Hér getur að líta rusl sem skilið var eftir í vegkanti. Það er spurning hver eigi að hirða þetta upp…
Hér getur að líta rusl sem skilið var eftir í vegkanti. Það er spurning hver eigi að hirða þetta upp? Mynd/Hneykslaður lesandi Skarps

Grein þessi birtist fyrst sem leiðari í prentútgáfu Skarps, 28. júní.

Lesandi Skarps leit við á ritstjórnarskrifstofunni á dögunum og var lítið eitt niðri fyrir. Hann dró fram og sýndi mynd sem hann hafði tekið af rusli í vegkanti rétt ofan við byggð; á leið upp á Reykjaheiði ofan Þverholts. Þarna hafði einhver tillitslaus umhverfis sóði (eða sóðar) kastað frá sér fuglabúri, svörtum ruslapoka fullum af drasli og úr sér  gengnum garðhúsgögnunum.

Það er ekki hægt að segja annað en að manni fallist hendur yfir drullusokkshættinum í fólki sem gerir svona nokkuð. Ég er hreinlega í rusli yfir þessu. Ég vona svo sannarlega að sá eða sú sem í hlut kunna að eiga, lesi þetta og skammist sín í drasl.

Þegar ég var búinn að ná mér eftir mesta áfallið við að sjá þessa mynd, sló ég á þráðinn til umhverfisstjóra Norðurþings til að forvitnast um hvort hann hafi orðið var við annan eins sóðaskap í störfum sínum. Hann sagðist ekki þekkja svo gróf dæmi eins og ég lýsti  fyrir  honum en viðurkenndi að umgengni væri á stundum ábótavant víða í samfélaginu og nefndi sem dæmi eldstæði við Sprænugil og við Skógrækt norðan Skálamels. Hann sagðist fagna því að útivistarsvæðin væru notuð af almenningi; til þess væru þau en það kæmi því miður allt of oft fyrir að fólk skilji rusl eftir sig.

Nú er líka sá tími ársins að fólk er að taka til í görðum sínum og þarf þá vitanlega að losa sig við þann garðúrgang sem til fellur. Sveitarfélagið hefur eftir bestu getu reynt að halda gámasvæði opnu til að fólk geti farið og losað  þennan  úrgang þegar því hentar og flestir virðast geta farið eftir  einföldustu tilmælum eins og að gámar undir garðúrgang eru  AÐEINS fyrir garðúrgang en ekki plast eða annað ólífrænt sorp. Því miður er það þannig að of margir henda  úrgangi  sínum í ruslapokum í gáminn. Elsku fólk,  viljið þið vinsamlegast tæma  pokana og taka þá með ykkur heim aftur. Plast á ekki heima í þessum gámum. Ef þetta  batnar ekki  endar með því að þessi  móttaka verði aðeins opin á hefðbundnum opnunartímum Gámaþjónustunnar, þá eruð þið búin að skemma fyrir okkur  hinum, varla viljið þið það.

Ást og friður

Egill P. Egilsson

Ritstjóri um stundarsakir


Nýjast