Dömulegir dekurdagar hefjast á morgun

Inga Vestmann og Vilborg Jóhannsdóttir skreyta bæinn bleikan. Mynd/Þröstur Ernir
Inga Vestmann og Vilborg Jóhannsdóttir skreyta bæinn bleikan. Mynd/Þröstur Ernir

Dömulegir dekurdagar verða haldnir á Akureyri um næstu helgi en herlegheitin hefjast á fimmtudaginn og standa fram á sunnudag. Allskyns uppákomur fara fram þessa daga í rómantísku og bleiku umhverfi þar sem dans, söngur, ljúfir tónar, list, hönnun, heilsa kvenna, fornvitnilegur fróðleikur, matur, drykkur og kruðerí koma meðal annars við sögu, er segir í tilkynningu frá Viðburðarstofu Norðurlands. 


Á föstudagskvöldið verða kvöldopnanir í verslunum bæði á Glerártorgi og í miðbænum. Konukvöld verður á Glerártorgi og dömukvöld í miðbænum þetta sama kvöld. Úrval viðburða af ólíku tagi sem heillað gætu bæði dömur og herra eru á bostólnum á föstu- og laugardagskvöld en þar má nefna tónleika, ball og diskótek.

 

Afslættir eru víða þessa helgi og því tilvalið að bregða fyrir sig betri fætinum og gera góð kaup í skemmtilega bleiku umhverfi.

 

Á föstudagskvöld verður sérstök happdrættissala sem verslanir á Glerártorgi standa fyrir og alla helgina verða til sölu flottir handþrykktir taupokar en allur ágóði af sölu þeirra og happdrættismiðanna rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Pokarnir eru búnir til í takmörkuðu upplagi og kostar hver þeirra 3.000 kr. Hægt er að panta þá með því að senda tölvupóst á domulegirdekurdagar@akureyri.is.

 

Hægt er að fylgjast með dagskránni á Visitakureyri.is og á Facebooksíðu Dömulegra dekurdaga.

Nýjast