Danskur Valsari af lífi og sál með sterkar tengingar til norðurslóða

Rasmus Gjedssø Bertelsen er gestaprófessor í heimskautafræði við Háskólann á Akureyri. Alla jafna gegnir hann stöðu prófessors í Norðurlandafræðum og málefnum Barentssvæðisins við Félagsvísinda- og menntunarfræðideild Norðurslóðaháskólans í Tromsø í Noregi. 

Rasmus er stjórnmálafræðingur og leggur áherslu á alþjóðastjórnmál, hagfræði og öryggi Norðurslóða í rannsóknum sínum. „Ég fæst við að rannsaka hvernig breytingar á alþjóðakerfinu hafa áhrif á norðurslóðir sögulega séð, áhrif þeirra í dag og hugsanlega í framtíðinni. Einnig er ég að skoða hvernig kalda stríðið milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna mótaði Norðurskautið og hvernig átökin núna milli Bandaríkjanna, Kína og Rússlands munu móta Norðurskaut framtíðarinnar,“ útskýrir Rasmus nánar.  

Rasmus kennir alþjóðastjórnmál norðurslóða í Tromsø og leggur áherslu á hvernig hnattrænar breytingar í stjórnmálum, hagfræði, öryggi, tækni og loftslagsbreytingum móta norðurslóðir. Við Háskólann á Akureyri heldur Rasmus málstofur fyrir framhalds- og doktorsnema um rannsóknir sínar.  

Framúrskarandi vísindamaður

Gestaprófessorsstaðan sem Rasmus gegnir við Háskólann á Akureyri er kennd við Fridtjof Nansen, hinn kunna norska heimskautafræðing og húmanista. Staðan er veitt framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. Ráðið hefur verið í stöðuna til eins árs í senn síðan 2011. Staðan gerir rannsakendum kleift að vinna með Háskólanum á Akureyri að ólíkum og fjölbreyttum málefnum norðurslóða. 

Viðfangsefnið sem Rasmus hefur valið fyrir Nansen-prófessorsstöðuna er: Barents- og vestnorrænu svæðin í alþjóðakerfinu. „Norðurskautssvæðin eru tvö, Barentssvæðið með Norður-Noreg, Svíþjóð, Finnland og Norðvestur-Rússland, þar sem Tromsø er staðsett miðsvæðis, og Vestur-Norðurlönd, þ.e. Ísland, Grænland og Færeyjar, þar sem Akureyri er miðsvæðis. Bæði þessi svæði hafa sögulega séð og munu til framtíðar mótast mikið af því sem gerist í alþjóðamálum, efnahagsmálum, öryggi og tækni,“ segir Rasmus. 

Tengir saman vísindafólk og námsfólk

Rasmus hefur sett sér það markmið að tengja betur saman vísindafólk og námsfólk frá svæðunum tveimur – og víðar – til að skilja betur stöðu þessara svæða í heiminum. Hann hefur nú þegar haldið fyrirlestra í Háskólanum á Akureyri og skipulagt ráðstefnur með alþjóðlegum fræðimönnum um efnið í Nuuk, Reykjavík og Tromsø. „Ég hafði milligöngu um ferð nemenda frá Tromsø sem heimsóttu Akureyri og Reykjavík í tengslum við Hringborð Norðurslóða (Arctic Circle Conference) í október á síðasta ári. Og í lok janúar fer ég svo með hóp nemenda frá Háskólanum á Akureyri á ráðstefnu í Tromsø,“ segir Rasmus. 

Rasmus skiptist á að vera á Akureyri og í Tromsø. Desember varði hann á Akureyri og hann mun verja janúar við kennslu í Tromsø auk þess sem hann mun taka þátt í Arctic Cricle Forum ráðstefnunni í Abu Dhabi 17. og 18. janúar næstkomandi. Hann stefnir á viðveru á Akureyri allan febrúar áður en hann heldur svo til Tromsø í mars.  

Tækifæri til samvinnu

„Nansen-prófessorsstaðan gefur mér tækifæri til mikillar samvinnu á Íslandi sem ég hef mjög gaman af því ég bjó hér sem barn. Þá veitir staðan mér tækifæri til að leiða saman Barents- og vestnorrænu svæðin. Það opnar dyr fyrir nýjum rannsóknum og tækifærum fyrir stúdenta og samfélagið í heild,” bætir Rasmus við.  

Rasmus fæddist í Kaupmannahöfn árið 1975 en bjó í 10 ár sem barn í Reykjavík með móður sinni, Gjedssø Bertelsen, sem starfaði sem sjúkraþjálfari og yfirsjúkraþjálfari á Landsspítalanum. Seinna, í námi sínu til fornleifafræðings vann hún svo á Þjóðminjasafninu. „Þannig að ég tala og les íslensku en ég þarfnast æfingar og þjálfunar til þess að geta skrifað,“ segir Rasmus. Hann var í Austurbæjarskóla árin 1984-1988, þar sem Vilborg Dagbjartsdóttir var umsjónarkennari. Árið 1991 hóf hann nám við Menntaskólann í Reykjavík. Rasmus nam stjórnmálafræði við Kaupmannahafnarháskóla þaðan sem hann fór sem skiptinemi til Háskóla Íslands sem Nordplus-nemi árin 1996-1998. Hann stundaði meistaranám í stjórnmálafræði í frönsku Lausanne og Genf í Sviss. Þá hefur Rasmus verið gestarannsakandi við Háskólann í Amsterdam. Rasmus stundaði doktorsnám sitt í alþjóðasamskiptum við Háskólann í Cambridge, þar af tók hann eitt ár sem gestadoktorsnemi við Sciences Po Paris. Hann var nýdoktor í Miðausturlöndum við Harvard Kennedy School of Government, og á meðan hann gegndi þeirri stöðu heimsótti hann Beirút, Kaíró, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Kúveit. Rasmus var einnig nýdoktor við Háskóla Sameinuðu þjóðanna – Institute of Advanced Studies í Yokohama. Þá var hann var nýdoktor í kínversk-dönskum samskiptum og lektor í alþjóðasamskiptum við Álaborgarháskóla í Danmörku. Frá árinu 2014 hefur Rasmus verið prófessor við Háskólann í Tromsø. 2020-2021 var hann gestaprófessor við Sorbonne-háskólann í París um vísindi diplómatíu. Frá árinu 2015 hefur Rasmus kennt sumarnámskeið um norðurslóðir við Háskólann í alþjóðasamskiptum í Peking og árið 2016 var hann gestaprófessor við Nordic Arctic Research Centre í Shanghai. Áhugamál Rasmusar eru meðal annars argentínskur tangó og Krav Maga sjálfsvörn. 

Uppáhalds platan mín er:

Frelsi til sölu með Bubba Morthens. 

Hvað hefur komið þér á óvart á Íslandi? 

Mér hefur komið á óvart að Íslendingar gera sér ekki grein fyrir því hversu mikilvægt það er fyrir íslenskt samfélag að Íslendingar sæki sér menntun og starfsreynslu erlendis.  

Hvað er best við Akureyri? 

Fallegt umhverfi og áhugavert samfélag. 

Vissir þú að

1. Ég er Valsmaður af lif og sál! (lék með Val sem barn). 

2. Ég var fyrsti erlendi töframaðurinn sem kom fram á sviði Austurbæjarskóla í Reykjavík. 

3. Ég ók um Norðurland sumarið 1998 sem einkabílstjóri fyrir danska sendiherrann á Íslandi. 

 


Athugasemdir

Nýjast