Dalvíkurbyggð gefur vinabæ sínum á Grænlandi jólatré

Eins og nokkur undanfarin ár gefur Dalvíkurbyggð vinabæ sínum á Grænlandi -  Ittoqqortoormiit - jólatré. Þorpið er nyrsta byggð á austurströnd Grænlands með um 600 íbúa og kunna þeir vel að meta þennan glaðning í svartasta skammdeginu. Áætlað er að tréð komist á leiðarenda mátulega fyrir 1. sunnudag í aðventu og þá verði kveikt á því.  

Veður eru þó válynd á þessum tíma árs og ef það tekst ekki verður reynt vikuna á eftir. Þó kreppi að hér á landi býr fólkið í Ittoqqortoormiit stöðugt við fátækt en atvinnutækifæri eru ekki mörg í þessu gamla veiðimannasamfélagi. Í ár senda sóroptimistasystur á Akureyri öllum börnum í þorpinu á aldrinum 0-10 ára jólagjafir og Ferðaskrifstofan Nonni á Akureyri gefur börnunum epli. Flugfélag Íslands sér um að koma öllum varningnum til Constable Point flugvallar endurgjaldslaust en þar taka heimamenn við og koma öllu heim í þorpið. Vonandi á þetta sameiginlega átak eftir að veita íbúunum gleði í byrjun aðventu, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast