Dalsbraut ekki nauðsynleg vegna umferðarþunga

Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis er ekki nauðsynleg vegna umferðarþunga í fyrirséðri framtíð en lagning hennar myndi engu að síður draga að sér umferð og því létta á eða a.m.k. draga úr vexti umferðar á öðrum leiðum eins og Þingvallastræti, Þórunnarstræti og Hlíðarbraut. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í samantekt frá verkfræðistofunni Eflu.  

Niðurstöður athugunar á þörf fyrir Dalsbraut voru kynntar á síðasta fundi skipulagsnefndar en fundinn sátu einnig fulltrúar í framkvæmdráði. Einnig kemur fram að til að þjónusta núverandi umferð og mæta umferðaraukningu í framtíðinni sé mikilvægt að bæta gatnamót Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar sem fyrst. Til að stuðla að betri nýtingu á Dalsbraut norðan Þingvallastrætis þurfi að greiða fyrir umferð að og frá Dalsbraut. Æskilegt sé að setja umferðarljós á gatnamót hennar við Þingvallstræti, sem myndu henta betur en hringtorg. Einnig er bent á að aðrar ástæður en umferðarþungi kunni að liggja að baki því að menn ákveði að leggja Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis. Augljósasti kostur Dalsbrautar sunnan Þingvallastrætis er að með lagningu götunnar styttast leiðir milli hverfa og umferðarkerfi Akureyrar verður heilsteyptara sem stuðlar að jafnari dreifingu umferðar og þar með betri nýtingu Dalsbrautar sem er þegar komin og hugsanlega minni umferð á Þórunnarstræti.

Lagning Dalsbrautar sunnan Þingvallastrætis stuðlar að styttri akstursvegalengdum milli hverfa og heilsteyptara gatnakerfi, segir ennfremur í samantekt frá Eflu. Til þess að ná þessum markmiðum þurfi götu með einni akrein í hvora átt, alla leið frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut.

Nýjast