Dagur íslenskrar tungu í Háskólanum á Akureyri

Það verður mikið um að vera í Háskólanum á Akureyri á Degi íslenskrar tungu. Mynd: Hörður Geirsson.
Það verður mikið um að vera í Háskólanum á Akureyri á Degi íslenskrar tungu. Mynd: Hörður Geirsson.

Háskólinn á Akureyri, Menningarfélagið Hraun í Öxnadal og grunnskólar í Eyjafirði standa sameiginlega að dagskrá í tilefni af Degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Dagskráin fer fram í hátíðarsal Háskólans á Akureyri kl. 17:00 – 18:30. Dagskráin er afar fjölbreytt en þar mun Guðmundur Engilbertsson sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar segja frá niðurstöðum rannsóknar á lestrarvenjum barna í fjórum löndum Evrópu. Þá munu börn í grunnskólum í Eyjafirði flytja ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og undirrituð verður viljayfirlýsing um stofnun Rannsóknaseturs um barnabókmenntir og lestur barna við Háskólann á Akureyri.

Dagskrá:
1.     Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur og lektor við HA opnar dagskrána
2.     Börn úr grunnskólum í Eyjafirði flytja ljóð um og eftir Jónas Hallgrímsson 
3.     Guðmundur Engilbertsson lektor við HA og sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar flytur erindið Vegir liggja til allra 8 - bækur og börn
4.       Tónlist og fjöldasöngur
5.       Opnun nýrrar heimasíðu Sjávarútvegsmiðstöðvar HA um lífríki sjávar í Eyjafirði
6.       Undirritun viljayfirlýsingar um stofnun Barnabókaseturs

Dagskráin er öllum opin, enginn aðgangseyrir, verið velkomin!

Úr Fjörunni til stórborga.  Jón Sveinsson –Nonni, á degi íslenskrar tungu í Háskólanum á Akureyri. kl. 16-16:45 í fyrirlestrarsal M102 .

Dagskrá: Hermann Sausen, sendiherra Þýskalands flytur opnunarávarp. Brynhildur Pétursdóttir, fv. safnvörður Nonnahúss: Nonni um víða veröld – Ný bók um ævi Jóns Sveinssonar og sýningar í Þýskalandi og Japan. Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri: Stórborgarævintýri æskumanns.

Í ár ætla nemendur og starfsmenn Þelamerkurskóla að koma saman á sal kl. 11.50, 16. nóvember, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Dagskráin verður fjölbreytt og er hún helguð Jónasi, íslenskri tungu og Stóru upplestrarkeppninni. Allir 7. bekkingar taka þátt í henni og hefst hún formlega á þessum degi. Í Jónasarlaug geta sundlaugargestir lesið ljóð sem nemendur 1.-4. bekkjar hafa skrifað upp og myndskreytt. Ljóðunum verður komið fyrir nálægt heitu pottum laugarinnar. Einnig verða verk nemenda elsta námshópsins Ég sem Jónas komið fyrir í anddyri laugarinnar.

 

 

Nýjast