Það voru „gullkálfarnir” tveir, þau Dagný Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri og Björgvin Björgvinsson frá Dalvík, sem unnu þrefalt á Skíðamóti Íslands í Hlíðarfjalli um helgina. Dagný Linda og Björgvin urðu Íslandmeistarar í stórsvigi, svigi og alpatvíkeppni.
„Ég er mjög ánægð með að hafa varið Íslandsmeistaratitlana mína tvo, það var það sem ég stefndi að og ég er glöð að það tókst þrátt fyrir að aðstæður í fjallinu hafi ekki verið upp á það besta þar sem það blés duglega á okkur á laugardaginn,” sagði Dagný Linda um árangur helgarinnar.
Akureyringar náðu glæsilegum árangri í kvennakeppninni í stórsvigi, Dagný sigraði með miklum yfirburðum og kom í markið tæpum 4 sekúndum á undan Salome Tómasdóttur sem varð í öðru sæti. Þessi árangur Salome, 2:12,04, nægði henni hins vegar til sigurs í flokki 17-19 ára. Í þriðja sæti í fullorðinsflokki og í öðru sæti í flokki 17-19 ára varð svo hin unga og efnilega Tinna Dagbjartsdóttir frá Akureyri sem er fædd árið 1991.Í karlaflokknum hafði Björgvin Björgvinsson viðlíka yfirburði og Dagný Linda. Hann sigraði á tímanum 2:00,30 og var um fjórum sekúndum á undan næsta manni sem var Þorsteinn Ingason frá Akureyri. Tími Þorsteins skilaði honum sigri í flokki 17-19 ára. Í þriðja sæti í fullorðinsflokki og í öðru sæti í flokki 17-19 ára varð Húsvíkingurinn Stefán Jón Sigurgeirsson sem einnig keppir fyrir Akureyri.
Fékk fína keppni frá Þorsteini
Keppni í svigi fór fram við frekar erfiðar aðstæður, töluverður hiti var í fjallinu sem gerði brautina erfiða yfirferðar, hvassviðri var framan af degi og þurfti margsinnis að fresta keppni. Loks tókst þó að að klára keppnina og sigruðu þau Björgvin og Dagný Linda og tryggðu sér um leið sigur í alpatvíkeppni. Þess má reyndar geta að eftir fyrri ferð í sviginu var hinn ungi og efnilegi Þorsteinn Ingason með sama tíma og Björgvin en honum hlekktist á síðari ferð og lauk því ekki keppni.
„Ég fékk fína keppni frá Þorsteini í sviginu og það er virkilega gott mál að það séu að koma ungir strákar upp í íþróttinni. Ég spái Þorsteini góðri framtíð ef hann nær að æfa rétt við góðar aðstæður,” sagði Björgvin aðspurður um samkeppnina.
Björgvin kom í mark á tímanum 1:29,83 samanlagt og var tæpum tveimur sekúndum á undan næsta manni sem var Gísli Rafn Guðmundsson úr Ármanni. Í þriðja sæti varð Stefán Jón Sigurgeirsson rúmlega fjórum sekúndum á eftir Björgvini. Þessi tími Stefáns Jóns skilaði honum sigri í flokki 17-19 ára og unir hann eflaust glaður við sitt. Í öðru sæti í þeim flokki var Ágúst Freyr Dansson.
Dagný Linda sigraði eins og áður sagði hjá konunum en þó ekki með sömu yfirburðum og í stórsviginu, hún kom í markið á tímanum 1:34,60 mín. sem var tæplega tveimur sekúndum betri tími en hjá Salome Tómasdóttur sem einnig varð í öðru sæti í þessari grein. Rétt eins og áður nægði tími Salome henni til sigurs í flokki 17-19 ára kvenna, í öðru sæti þar og í þriðja sæti í heildarkeppninni varð Þóra Stefánsdóttir frá Akureyri.