Dæmdur fyrir þjófnaði

Karlmaður hefur í Héraðsdómi verið dæmdur fyrir innbrot og þjófnaði á fjórum stöðum á Akureyri, en hann braust reyndar inn tvívegis á einum staðanna. Mest var um smáhnupl að ræða en þó gerðist hann stórtækur á einum staðnum. Hann braust inn í íþróttahöllina og stal þar 7-8 þúsund krónum. Þá fór hann inn í KA-heimilið en lagði á flótta þar sem ungir drengir voru í húsinu í gistingu. Hann fór þó að nýju í KA-heimilið næstu nótt og stal þá þúsund krónum og tveimur greiðslukortum. Hann braust inn í fóðurvörufyrirtækið Laxá og stal þaðan tveimur tölvum og tveimur tölvuskjám og loks braust hann inn í verslunina Adam og Evu þar sem hann stal 20-30 DVD-diskum, nuddolíu og kynlífshjálpartækjum. Með þessum afbrotum rauf pilturinn skilorðsdóm og var hann að þessu sinni dæmdur í 2 mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára og að greiða um 80 þúsund krónur í málskostnað.

Nýjast