21. maí, 2007 - 17:41
Fréttir
Karlmaður hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdur fyrir kynferðisafbrot gagnvart dóttur sinni sem er ekki andlega heilbrigð. Faðirinn hafði tvívegis í janúar á þessu ári mök við stúlkuna og fyrir 16 árum var hann einnig dæmdur fyrir kynferðisafbrot gagnvart henni. Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra segir að faðirinn hafi haft mök við stúlkuna sem; ,,...gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka sinna." Faðirinn misnotaði dótturina tvívegis með viku millibili. Við yfirheyrslur hjá lögreglu neitaði hann sök en kom á lögreglustöðina daginn eftir og játaði. Dómurinn yfir manninum hljóðaði upp á þriggja ára fangelsi, til að greiða stúlkunni 800 þúsund krónur og greiðslu málskostnaðar upp á 574 þúsund krónur.