Viðræður um útflutning á íslensku vodka og gini
Tímamót urðu hjá fyrirtækinu Eldfjallabrugg ehf í byrjun júlí þegar á markaðinn komu tvær nýjar vörutegundir, annars vegar vodki og hins vegar gin. Fyrirtækið hefur starfað í ríflega þrjú ár og hefur framleitt svonefnda gosbjóra með nafninu Volcanic.
Við vorum afskaplega ánægðir þegar þessum áfanga var náð og ég get ekki annað sagt en að viðbrögð hafa verið mjög góð, þó varan hafi ekki verið lengi á markaði hafa viðtökur verið mjög góðar, segir Alfreð Pálsson frakkvæmdastjóri Eldfjallabruggs. Hann segir að viðtæður standi yfir um útflutning á sterku drykkjunum, m.a. sé verið að skoða möguleika á að selja vöruna í Rússlandi og einnig í Balkanskagalöndunum svonefndu, Norðurlöndin séu einnig inni í þeirri mynd og þá hafi Bretar einnig sýnt vörunni áhuga.
Við höfum fundið fyrir áhuga víða og eigum í viðræðum við aðila hér og þar í heiminum og væntum þess að innan skamms muni koma í ljós hver niðurstaðan verður í þeim efnum, segir Alfreð.
Áhugi fyrir gosbjórnum er líka fyrir hendi úti í hinum stóra heimi en Alfreð segir að ekki svari kostnaði að flytja út flöskur, það kosti of mikið miðað við ávinning. Við erum því að skoða hvort hægt er að framleiða og tappa gosbjórnum á í verksmiðjum úti með framleiðsluleyfi frá okkur. Það er því mikið um að vera hjá okkur þessa dagana og bara mjög gaman af því, segir Alfreð.
Nánar um þetta í prentútgáfu Vikudags