Akureyrarbær óskar eftir þátttakendum á Stórþing eldri borgara

Stórþing eldri borgara verður haldið í Hofi 30. maí
Stórþing eldri borgara verður haldið í Hofi 30. maí

Stórþing eldri borgara verður haldið í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri föstudaginn 30. maí. Markmið þingsins er að kanna viðhorf einstaklinga 60 ára og eldri til þjónustu Akureyrarbæjar og safna hugmyndum að áframhaldandi þróun þjónustunnar.

Akureyrarbær óskar eftir þátttakendum á þingið og eru áhugasamir hvattir til að sækja um hér. „Í kjölfar niðurstaðna úr könnun Gallup langar okkur að heyra frekar frá notendum sjálfum um lífsgæði eldri borgara og þjónustu sveitarfélagsins, hvað gengur vel og hvar megi bæta,“ segir Kristín Jóhannesdóttir, sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar.

Stórþingið er mótað eftir fyrirmynd Stórþings ungmenna, sem haldið hefur verið nokkrum sinnum með góðum árangri. „Það skiptir miklu máli að heyra frá eldra fólki í sveitarfélaginu á öllum aldursbilum og frá fólki sem nýtir mismunandi þjónustu. Niðurstöður verða nýttar til umbótastarfs og í næstu aðgerðaráætlun,“ segir Kristín og hvetur sem flesta til þátttöku.

Nýjast