Verðlaun veitt á Handverkshátíð
Grétar Þór Pálsson var valin handverksmaður Handverkshátíðar 2013, fyrir fallegt og vel unnið handverk, en dómnefnd heillaðist sérstaklega af fagurlega útskronum heklunálum hans.
Verðlaun voru veitt á Handverkshátíð í gær. Hönnunarverðlaun Handverkshátíðar hlaut HALLDORA, fyrir heildstæða og fallega hönnun með vísun í þjóðararfinn, bæði hvað varðar efnisnotkun og munstur. Skór eru unnir úr íslensku hráefni að miklu leyti, s.s. lambsleðri, roði, hrosshárum og hrafntinnu, hraunkristöllum auk hrosshúðar. Með efnisnotkun sinni nær Halldóra að breyta efnistökum íslensku sauðskinnsskónna í alþjóðlega hátískuvöru, segir í umsögn dómnefndar.
Þá var veitt viðurkenning fyrir sölubás ársins, hún kom í hlut Einars Gíslasonar, en bás hans þykir sjónrænn, stílhreinn og grípandi. Heimilisiðnaðarfélagið sem fagnar 100 ára afmæli í ár hlaut heiðursverðlaun Handverkshátíðar 2013. Þá var póstkassi ársins valin, en líkt og í fyrrasumar var efnt til samkeppni meðal íbúa Eyjafjarðarsveitar um best skreytta póstskassann. Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut ábúenda á Hvassafelli.