Um 760 íbúðir skráðar á öllum byggingarstigum

Alls eru 757 íbúðir skráðar hjá skipulagsdeild Akureyrarbæjar í dag á öllum byggingarstigum. Ekki er þó byrjað að byggja þær allar en framkvæmdir hafnar t.d. með jarðvegsskiptum og búið að gefa út lóðarsamning en síðan eru aðrar íbúðir langt komnar eða jafnvel flutt inn í þær.  

Af þessum 757 íbúðum eru 397 í raunverulegri notkun og því eru 360 íbúðir sem ekki er flutt inn í, samkvæmt upplýsingum Pétrurs Bolla Jóhannessonar skipulagsstjóra. Í Aðalskipulagi Akureyrar er gert ráð fyrir því að þörf sé fyrir um 138 íbúðir ári og samkvæmt því er um tveggja og hálfs ár skammtur nú í pípunum. Pétur Bolli segir að ekki ætti því að vera mikil þörf á nýjum íbúðum. "Þó er alltaf eitthvað um að menn fari af stað og þá með í huga að byggja íbúðir sem henta markaðnum hverju sinni, s.s. minni íbúðir sem kannski hentar í dag."

Samkvæmt yfirliti yfir byggingaframkvæmdir á Akureyri frá árinu 1986, náðu byggingaframkvæmdir hámarki árið 2007, þegar 887 íbúðir voru skráðar í byggingu í bænum, langflestar í fjölbýlishúsum. Árið 2008 voru 699 íbúðir í byggingu og 725 íbúðir á síðasta ári.

Nýjast