Tveir voru í bíl sem kastaðist ofan í Glerá
Betur fór en á horfðist þegar fólksbifreið með tveimur mönnum innanborðs hafnaði í Glerá seint í gærkvöld. Að líkindum skipti það sköpum að bíllinn hafnaði á hjólunum þegar hann koma ofan í ánna. Óhappið átti sér stað við þá brú sem tengir Hörgárbraut við Glerárgötu.
Tilkynnt var um óhappið til lörgreglu um kl. 23.40. Bifrreiðinni hafði verið ekið suður Hörgárbraut, en að sögn lögreglu missti ökumaður stjórn á henni með þessum afleiðingum. Hann lenti upp á kanti, kastaðist þaðan á vegrið, fór yfir það og hafnaði að lokum ofan í ánni. Um nokkuð hátt fall er að ræða, 3-4 metra segir lögregla og þykir því mikil mildi að ekki fór verr. Farþega tókst sjálfum að komast út úr bílnum og upp á árbakkann, en aðstoða þurfti ökumann sem var fastur í bíl sínum úti í ánni.
Fjölmennt lið bæði frá lögreglu og Slökkviliði Akureyrar var að störfum á vettvangi.
Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri, en hvorugur var alvarlega slasaður að sögn lögreglu. Bíllinn er gjörónýtur og var hífður upp úr ánni í nótt.