Sveppaspretta með eðlilegum hætti

Áhugafólk um sveppatínslu getur tekið gleði sína, sveppaspretta virðist vera með eðlilegum hætti nú í sumar en sáralítið var um sveppi í fyrrasumar sökum langvarandi þurrka.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands, segir að kúalubbi hafi borið aldin fyrir nokkrum vikum og haldi því væntanlega áfram fram á haust. Síðustu   vikur hefur lerkisveppur sprottið upp í lerkiteigum. Furusveppur er að hennar sögn einnig farin að bera aldin, „en hann er oftast heldur seinna á ferðinni en lerkisveppurinn,“ segir hún.

Nóg af lerkisveppum

 Guðríður Gyða hafði spurnir af fólki sem leigir spildur af Skógræktarfélagi Eyfirðinga á Hálsi í Eyjafjarðarsveit, þar sem það stundar skógrækt og nóg hefur verið af lerkisveppum þar um slóðir undanfarið.

„Fólk þarf einfaldlega að fylgjast með því hvenær matsveppir bera aldin og ná þeim ungum og ferskum. Best er að safna sér forða til vetrarins fyrr en seinna því alltaf má búast við næturfrosti þegar líður á sumarið,“ segir Guðríður.

Nýjast