Staða bæjarsjóðs

Ólafur Jónsson
Ólafur Jónsson

Töluverð umræða hefur verið síðustu daga í kjölfar beiðni minnar í bæjarráði um að unnið yrði sex mánaða uppgjör fyrir bæjarsjóð. Ég hef fengið fjölmargar fyrirspurnir um það hvað mér hafi gengið til með þessari beiðni, enda árshlutauppgjör ekki verið gerð hingað til fyrir bæjarsjóð Akureyrarkaupstaðar.

Ég tel því rétt að bregðast við þessu og skýra mál mitt frekar hér í nokkrum orðum.

Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun yfirstandandi árs í bæjarstjórn í desember sl. óskaði ég eftir því að tíminn  milli fyrri og seinni umræðu í bæjarstjórn yrði nýttur til að fara betur ofan í forsendur áætlunarinnar og leitað yrði leiða til að ná niður gjöldum um nokkur hundruð milljónir króna.

Mér þótti þá ljóst í hvað stefndi og því nauðsynlegt að grípa þegar til aðgerða.

Því miður var ekki hljómgrunnur fyrir þessari tillögu minni í bæjarstjórn og hálfum mánuði síðar var fjárhagsáætlunin nánast óbreytt komin til endanlegrar afgreiðslu og þar fékk hún samþykki allra bæjarfulltrúa nema að ég gat ekki greitt henni mitt atkvæði.

Þegar ársreikningur 2012 var síðan kynntur á vordögum kom í ljós að það var 750 milljón króna halli á bæjarsjóði og einnig halli á samstæðunni þrátt fyrir góða afkomu Norðurorku og eins 200 milljón króna bótagreiðslu frá Viðlagatryggingarsjóði. Býst ég við að það hafi komið mörgum óþægilega á óvart.

Eins og fram hefur komið hjá formanni bæjarráðs þá fá bæjarfulltrúar reglulega yfirlit yfir stöðu bæjarsjóðs í bæjarráði, sem eru í raun vinnugögn sem ekki eiga að kalla á opinbera umræðu s.s. eins og í bæjarstjórn. Þær tölur sem hafa verið að koma í ljós um rekstur bæjarins geta varla talist trúnaðarmál lengur í ljósi umræðunnar í fjölmiðlum síðustu vikurnar.

Ég tel hins vegar að það hefði verið eðlilegra að sú umræða færi fram þegar það lægi fyrir formlegt árshlutauppgjör.

Því miður fékk tillaga mín ekki brautargengi í bæjarráði og var felld með atkvæðum meirihlutans og fulltrúa Bæjarlistans, en fulltrúi Vinstri Grænna sat hjá.

Þessi tillaga mín er algjörlega eðlileg í ljósi afstöðu minnar í bæjarstjórn við afgreiðslu fjárhagsáætlunar sl. haust og eins þeirra upplýsinga sem bæjarfulltrúar hafa verið að fá að undanförnu um stöðu bæjarsjóðs.

Formlegt árshlutauppgjör hefði verið nauðsynlegt verkfæri til að fá fram opna og markvissa pólitíska umræðu um mikilvægt mál. Mál sem ekki batnar við að bíða. Það eitt gekk mér til.

 

Ólafur Jónsson

Höfundur er bæjarfulltrúi

Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.

Nýjast