Skötuselur, svínabógur og Bárugötukaffi
Arnar Símonarson samfélagsþjálfi og grunnskólakennari - nú búsettur í Horsens í Danmörku þar sem hann vinnur við aðhlynningu aldraðra, býður upp á rjómalagaðan skötusel á steiktu brauði, hægeldaðan svínabóg með puru og svo "Bárugötukaffi". Arnar segir að leiðbeiningar varðandi eldun á svínabógnum/purusteikinni hafi hann fengið frá danskri fósturmóður og vinkonu - "Og þessi eldunaraðferð heppnast alltaf svona ljómandi vel" segir hann", "enda farið víða".
Arnari finnst gaman að elda góðan mat, hann nýtur sín vel í eldhúsinu og honum finnst sérstaklega notalegt að taka á móti fjölda ættingja og félaga og vina í mat og drykk, spjalla og eiga góðar stundir. "Svo er nú ekki leiðinlegt að taka nokkur dansspor svona í lokin...
Sjálfur segist Arnar ekki alltaf fara nákvæmlega eftir uppskriftum og hann er óhræddur við að taka "áhættur" og prófa aðrar leiðir þegar kemur að matargerð margskonar. Sambýlismaður hans, Jón Arnar Sverrisson blómaskreytir og garðyrkjumaður tekur gjarnan að sér að sjá um borðskreytingar og skapa notalega stemningu þegar haldin eru "stór" boð á heimili þeirra. Arnar er forfallin safnari sérstakra postulínsmuna og mávastellið er í algeru uppáhaldi hjá honum, enda fá gestir oft að njóta þess þegar svo ber við.
Skötuselur á steiktu brauði f. 6 manns. (Nokkurskonar snittur - kaldar...)
6 sneiðar fínkorna brauð
skötuselur
olía
rjómi
Sýrður rjómi og majones
Sweet relish mauk
Krydd eftir smekk, t.d. estragon, timian, pipar, fiskikrydd, salt...
Grænmeti og kál til skrauts. (nota oft klettasalat.)
Aðferð : olía er sett á pönnu og hún hituð vel. Stungið er úr brauðinu t.d. með stóru glasi. Brauðið er steikt í olíunni og það sett á pappír til að draga frá sér mestu fituna. Brauðið á helst að vera ljósgullið og stökkt. Það látið kólna. Þá er skötuselurinn hreinsaður og himnan rifin frá, fiskurinn skorinn í ca. 2 sm. þykkar sneiðar. Rjómi er settur á pönnu, smá slatti af olíu, kryddað eftir smekk. Má alveg nota smá grænmetiskraft út í rjómasoðið. Passa bara vel að lögurinn sé ekki of saltur. Fiskurinn er steiktur í rjómaleginum í ca. 2 -4 mínútur þegar farið er að krauma smá, fer svolítið eftir hita og stærð bitanna. Fiskinn má ekki steikja of mikið. (svipaðir eiginleikar og með humar...) Þá er hrært saman sýrðum rjóma, majonesi og sweet relish mauki. Kremið sett á brauðið, þvínæst klettasalat t.d., þá fiskurinn, og svo er skreytt með t.d. smáum tómötum, vínberjum, jafnvel papriku og steinselju.
Önnur útfærsla : gaman að prófa líka að blanda saman majonesi, sýrðum rjóma og t.d. sweet chilisósu og nota sem krem undir fiskinn. ´
Svínabógur - purusteik.
Þegar bógurinn er eldaður í 6 -7 tíma, þá er hann bestur !! Ath. ég sýð ekki puruna fyrst eins og sumir gera ! Þegar bógurinn er eldaður er um að gera að vera vel vakandi undir lokin og fylgjast vel með að puran sviðni ekki.
Svínabógur ca. 5 - 6 kíló - fæst stundum á tilboði !!
Lúkufylli af grófu salt.
Lúkufylli af lárviðarlaufum.
Lúkufylli af negulnöglum.
Vatn.
Skerðu rendur í svínabóginn með ca. 1 sentimetra millibili. Best að nota dúkahníf !! Makaðu grófu salti fyrir bóginn. Stingdu þá negulnöglum og lárviðarlaufum hist og her í raufirnar. Settu bóginn í djúpt eldfast mót og helltu 2 glösum af vatni í mótið. Stilltu ofninn á 120 - 130 gráður (ath. ég nota blástur fyrst og grillið síðast, alveg undir lokin.) - og leyfðu þessu öllu að malla í ca. 2 tíma. Hækkaðu þá hitann upp í 140 - 150 gráður og fylgstu með elduninni í ca. 1 og 1/2 klukkustund. Settu þá 1 glas af vatni til viðbótar í mótið og breiddu jafnvel álpappír yfir bóginn til að skapa góðan raka í kjötinu. Leyfðu þessu að malla áfram í hátt á aðra klukkustund við 160 gráður. Taktu þá álpappírinn af og hækkaðu hitann upp í 180 -190 gráður. Haltu þessu þannig í um klukkustund. Þegar um 6 - 7 klukkustundir eru liðnar og gestirnir eru tilbúnir fyrir aðalréttinn þá skaltu skipta yfir á grillstillingu og "sprengja" puruna þannig að hún verði stökk. Þarna er um að gera að vera vel vakandi, þar sem "sprengingin" tekur jafnvel bara nokkrar mínútur. Ath. puran á að vera vel stökk, ekki seig !
Ég ber yfirleitt bóginn fram með sérstöku salati frá Huldu vinkonu í Enebakken í Noregi, en það á sér enga hliðstæðu : majones, sýrður rjómi, mandarínur úr dós (ekki safinn) - og haldið ykkur : sykurpúðar klipptir í teninga !! Hreint geggjað !!
Bárugötukaffi
Neskaffi, heitt vatn, ein skeið Betty Crocker krem, þeytirjómi ofan á og svo dass af kanil og súkkulaðispæni !
Með þessu er gaman að bera fram fylltu vatnsdeigsbollurnar sem fást t.d. í Bónus, raða þeim skemmtilega upp og hella yfir þær súkkulaðikremi sem búið er til úr flórsykri, kakói og sterku kaffi.
Ég ætla að skora á Svölu Sveinbergsdóttur að leggja til uppskriftir í næsta blaði. Hún bakar sérlega fín brauð og gerir geggjaðar súpur, segir Arnar Símonarson.