Sigmundur Ernir verður bæjarstjóri og Samherji siglir djarft
Margir hafa á huga á völvuspám, sem birtast í fjölmiðlunum þessa dagana.
Völva Vikunnar kemur víða við í spádómum sínum. Hún segir að veturinn verði svolítið erfiður. Á Norðurlandi verður veturinn slæmur, segir völvan en á móti kemur að Norðlendingar fá einna besta sumarið.
Á pólitíska sviðinu segir völva Vikunnar að L-listinn nái ekki flugi í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Völva DV segir að Samherji sigli djarft á árinu og láti til sín taka í samfélaginu þegar flugfélagið Bláfugl skiptir loks um eigendur. Þá segir völvan að hið gamalgróna fyrirtæki Stálskip í Hafnarfirði komist undir verndarvæng Samherja, þótt ekki verði um bein eignartengsl að ræða. Einnig segir völvan að Samherji fari í mál við Seðlabankann vegna rannsóknar á fjármálum fyrirtækisins. Völvan sér bankann tapa því máli og standa með skottið milli lappanna á Arnarhóli.
Og völva DV segir að Sigmundur Ernir Rúnarsson fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar leiði lista Bjartrar framtíðar á Akureyri og vinni stórsigur. Völvan segir að Sigmundur Ernir öðlist nýtt pólitískt líf sem bæjarstjóri á Akureyri. Með honum á framboðslistanum verði nokkrir gamlir félagar, m.a. forsprakkar hinna fornu Skriðjökla.
Nánar um þetta allt saman í Vikunni og DV