Siglingatölvu stolið úr Húna

Húni við bryggju á Akureyri/mynd karl eskil
Húni við bryggju á Akureyri/mynd karl eskil

„Þetta er bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt tjón,“ segir Þorsteinn Pétursson hjá Hollvinum Húna II á Akureyri. Brotist var inn í bátinn í vikunni og stolið þaðan siglingatölvu. „Það var talsvert af gögnum varðandi siglingar og annað slíkt í tölvunni sem við fáum sennilega ekki til baka. Þetta er félag sem á lítið af peningum og skaðinn því mikill."

Þorsteinn segir að upp hafi komist um verknaðinn um miðjan dag í gær, þegar fara átti í að undirbúa skötuveislu. „Sennilega hefur þetta gerst á þriðjudag eða miðvikudag. En það var engu öðru stolið og engar skemmdir unnar á bátnum.“

Hollvinir Húna láta þetta leiðinlega atvik ekki á sig fá og verður heilmikil skötuveisla í kvöld. „Þetta er þriðja skötuveislan og það verða yfir 120 manns sem borða skötu í Húna fyrir jólin,“ segir Þorsteinn Pétursson.

throstur@vikudagur.is

Nýjast