Salan fer rólega af stað

„Þetta er heldur rólegri sala en gengur og gerist fyrstu dagana en við höfum litlar áhyggjur og búumst við miklum fjölda bæði í dag og á morgun,“ segir Magnús Viðar Arnarsson formaður Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri. Flugeldasala hófst á laugardaginn en Magnús segir undirbúninginn yfirleitt byrja strax í janúar. „Þetta er svipað magn af flugeldum sem við fáum hingað norður ár hvert og í grunninn það sama, en það koma alltaf einhverjar nýjungar."

Hann segir kökurnar vinælastar. "Þær verða vinsælli með hverju árinu en einnig var aukning í rakettusölu í fyrra. Þá var talsverður snjór til þess að stinga rakettunum niður og þetta helst í hendur. Það er vel af snjó núna þannig að það ætti að seljast talsvert af rakettum.“

Meðaleyðsla um 10 þúsund 

„Við eigum mjög tryggan kúnnahóp hér á Akureyri sem verslar alltaf við okkur og við sjáum sömu andlitin ár eftir ár. Fólk kaupir misjafnlega mikið af flugeldum, það er einn og einn sem verslar fyrir mjög stórar upphæðir en meðalmaðurinn er að versla fyrir um tíu þúsund krónur.“

Sjálfur segist Magnús vera skotglaður þegar kemur að flugeldum. „Ég sprengi töluvert en hef aðeins dregið úr því undanfarin ár. Maður sleppir sér hins vegar í klukkutíma í kringum miðnætti á Gamlárskvöld,“ segir Magnús og hlær.

throstur@vikudagur.is

Nýjast