Sæludagur í Hörgársveit

Sæludagur í Hörgársveit verður haldinn á laugardaginn í tíunda sinn. 
Að vanda er fjöldi viðburða um alla sveit frá því um morguninn og fram á rauða nótt. Sæludagurinn byggir á því að fjöldi fólks um alla sveit bryddar upp á einhverju skemmtilegu og opnar hús sín, garða eða fjós.
Ákveðnar hefðir hafa skapast á Sæludeginum. Keppni í sveitafitness fer fram á Möðruvöllum og er jafnan gríðarvinsæl. Þar er keppt í greinum sem eru hluti af daglegu lífi bænda, s.s. að stafla áburðarpokum, festa dekk á heyvagn, stökkva yfir heyrúllu og söðla hest sem vill kannski ekki láta söðla sig. Í Arnarnesi er jafnan líflegur sveitamarkaður með spennandi sölubásum og frammi í Öxnadal er farið í göngu- eða fjórhjólaferðir. 
Sæludagurinn er ætlaður öllum og gestir boðnir velkomnir. 
Á Hjalteyri er miklu tjaldað til. Þar verður opnuð  myndlistarsýning sem byggir á kvikmyndum frá Svalbarða. Seinnipartinn verður margbreytileg dagskrá ætluð fjölskyldufólki, en um kvöldið verða þar tónleikar fyrir lengra komna með hljómsveitum á borð við Reptilicus og Rafstein.
Dagskrá Sæludagsins lýkur með ekta gamaldags sveitaballi á Melum í Hörgárdal. Þar er 25 ára aldurstakmark nema í fylgd með fullorðnum.

Nýjast