Prestur gengur á 30 fjöll
Þorgrímur Daníelsson, sóknarprestur á Grenjaðarstað hyggst ganga á þrjátíu fjöll og/eða tinda í ágúst til að vekja athygli á Landspítalasöfnun þjóðkirkjunnar.
Sem kunnugt er hefur þjóðkirkjan hrundið af stað söfnun til kaupa á geislatæki, svonefndum Línuhraðli, sem notaður er við krabbameinslækningar á Landspítalanum. Þau tæki sem nú eru í notkun eru komin til ára sinna og bila oft. Með áskorun sinni við tindana vill Þorgrímur hvetja landsmenn til að leggja söfnuninni lið.
Hægt verður að fylgjast með ferðum sr. Þorgríms á Facebook- síðunni 30 tindar í ágúst Þar verður birt gönguáætlun næstu daga eftir því sem veður leyfir. Þorgrímur mun ganga á fjöll víða um land. Hverjum sem vill er velkomið að slást með í för á eigin ábyrgð að sjálfsögðu.
Söfnunarreikningur Landspítalasöfnuninnar er 0301-26-050082, kt. 460169-6909.