Minjasafnið leitar að jólaskrauti og jólagjöfum frá ýmsum tímum

Minjasafnið á Akureyri óskar eftir  jólaskrauti, bæði sem safngripum og sem skraut í útstillingar á vegum safnins. Safnkennslan, sem ávallt nýtur vinsælda meðal skóla fyrir jólin, mun einnig njóta góðs af gömlu jólaskrauti þar sem hægt verður að segja frá sögu þess og þróun í gegnum tíðina. Jólaskraut þekkist ekki hér á landi fyrr en seint á 19. öld og þá helst í kaupstöðum.  

Jólaskreytingar aukast í kringum 1906 en verður ekki sjálfsagður hluti jólahalds meðal almennings fyrr en milli 1940 og 50.  Hanna Rósa Sveinsdóttir sérfræðingur á Minjasafninu segir að verið sé að óska eftir jólaskrauti frá ýmsum tímum en þó ekki því allra nýjasta. Skraut sem skráð verður sem safngripir og varðveitt sem slíkt en jafnframt skraut sem hægt verður að nota á starfsdögum. "Þetta getur verið allt frá jólatrám og niður í jólaskraut á tré. Einnig þessar gömlu bréflengjur sem voru dregnar í sundur eins og harmonikur og hengdar upp í loft horna á milli í stofum á árum áður. Það er ákveðin tíska í jólaskrauti eins og annarri tísku, hvað varðar litaval, efni og stíla. Okkur langar að geta sýnt sem breiðustu og trúverðugustu flóruna og að ná sem mestu inn frá hverju tímabili. Margir hlutir öðlast tilfinningalegt gildi með árunum og það er eins og að hitta gamla vini að opna kassana með jólaskrautinu í desember og týna fram eitt og annað," segir Hanna Rósa.

Aðventuljós og jólaseríur eru líka hlutir sem safnið leitar eftir og segir Hanna Rósa að þá skipti ekki öllu máli hvort slíkir hlutir eru nothæfir lengur eða ekki. "Gamlar jólaseríur hafa ákveðin gildi og útlit þeirra hefur breyst í gegnum tíðina. Ef einhver lumar á fyrstu kynslóð af aðventuljósum er það líka eitthvað sem væri vel þegið."

Nú stendur yfir örsýningin "Hvað var í pakkanum" á Minjasafninu. Að gefa jólagjafir eins og nú tíðkast er ekki gamall siður meðal almennings hér á landi.  Jólaglaðningurinn fólst oftast nær í einhverri tilbreytingu í mat og drykk eða betur útlátnum matarskammti auk nýrrar flíkar. Það er ekki fyrr en eftir miðja 19. öld að nokkuð fór að bera á jólagjöfum eins og við þekkjum þær og í raun ekki fyrr en eftir 1940  sem almenningur gat leyft sér að kaupa þær og gefa vegna fátæktar.  

Í tengslum við sýninguna vill starfsfólk safnsins biðla til fólks um gamlar skemmtilegar og eftirminnilegar jólagjafir sem það myndi vilja gefa á safnið og ekki væri verra ef með fylgdi frásögn af minningum viðkomandi um gjöfina og hversu dýrmæt hún er. "Skemmtilegt er frá því að segja að ákveðin tískusveifla er einnig í jólagjöfum. Hver man ekki eftir því þegar stórhluti landsmanna fengu fótanuddtæki!  Safnið á þó tvö slík tæki og er því nokkuð vel sett með það," sagði Hanna Rósa.

Þá er einnig ástæða til að minna fólk á að hafa Minjasafnið í huga á þrettándanum þegar jólaskrautið verður tekið niður. Þeir sem eiga jólaskraut eða gamla jólagjöf með sögu sem þeir vilja gefa Minjasafninu er bent á að hafa samband við starfsfólk þess í síma 462-4162.

Nýjast