Miðaldadagar á Gásum við Eyjafjörð haldnir um helgina.

Á Miðaldadögum er reynt að endurskapa lífið eins og það gæti hafa litið út í kringum árið 1300. Þá voru Gásir ein mesta útflutnings- og verslunarhöfn landsins. Á hverju sumri í 400 ár spratt þar upp heilt verslunarþorp með iðandi og fjölbreytilegu mannlífi.

„Miðaldadagar hafa vaxið jafnt og þétt síðan þeir voru fyrst haldnir fyrir tíu árum. Í fyrra komu um 2.200 manns og er búist við heldur fleiri í ár“ segir Skúli Gautason menningarfulltrúi Hörgársveitar og verkefnastjóri Miðaldadaga.

„Fólk kemur víðsvegar af landinu á Miðaldadaga, bæði sem þátttakendur og gestir. Íslendingar eru í meirihluta, en sífellt er meira um að erlendir ferðamenn sækji Miðaldadaga. Margir koma aftur og aftur, sumum finnst ekki vera komið sumar fyrr en þeir eru búnir að koma á Miðaldadagana.“

Opið verður í dag og á morgun frá kl. 11 til 18.

Nýjast