Miðaldadagar á Gásum um helgina
Miðaldadagar á Gásum við Eyjafjörð verða haldnir í tíunda sinn um helgina, 19.-21. júlí. Á Miðaldadögum er reynt að endurskapa lífið eins og það gæti hafa litið út í kringum árið 1300. Þá voru Gásir ein mesta útflutnings- og verslunarhöfn landsins. Á hverju sumri í 400 ár spratt þar upp heilt verslunarþorp með iðandi og fjölbreytilegu mannlífi. Það verður opið á Miðaldadögunum kl. 11-18 þessa þrjá daga, föstudag, laugardag og sunnudag og veðurspáin er hagstæð.
Verið er að setja í loftið nýtt smáforrit eða app sem heitir Gásir. Í því er kort af svæðinu, hljóðleiðsögn og myndir af Miðaldadögunum. Auk þess er stutt teiknimynd sem útskýrir á gamansaman hátt hvað Gásir eru. Þar má líka finna dagskrá Miðaldadaganna.
Appið er ókeypis og er til fyrir Android og iPhone.