Messufall vegna ófærðar

Engin messa verður í Þönglabakka í Þorgeirsfirði í Fjörðum í ár,
Engin messa verður í Þönglabakka í Þorgeirsfirði í Fjörðum í ár,

„Þetta eru nokkuð óvenjulegar aðstæður, það er enn ófært út í Fjörður,“ segir sr. Bolli Pétur Bollason sóknarprestur í Laufási, en ganga og messa í Þönglabakka í Þorgeirsfirði í Fjörðum sem verið hefur síðasta sunnudag í júlí undanfarin ár fellur niður vegna ófærðar.

Sr. Bolli segir að stefnt sé að því að opna leiðina um næstu mánaðamót, júlí /ágúst og því hafi ekki verið talið ráðlegt að auglýsa messuna og halda hana nú í ár. Messað hefur verið í Þönglabakka, úti undir berum himni frá því árið 2008 en það var sr. Kristján Valur Ingólfsson sem hóf helgihald í Fjörðum.

„Það var metþátttaka í fyrrasumar, þá mættu vel á þriðja hundrað manns sem ýmist komu gangandi eða siglandi en Húni II sigldi með kirkjugesti að Þönglabakka. Húnamenn voru tilbúnir að sigla í ár, en sjóleiðin ein nægir ekki,“ segir sr. Bolli. Hann segir þátttöku hafa aukist ár frá ári, í fyrstu messuna mættu um 160 manns og sem fyrr segir voru þátttakendur vel á þriðja hundrað í fyrra.

Messan er ævinlega haldin þriðja sunnudag í júlí. Sá dagur þykir henta vel til helgihaldsins, en Þönglabakkakirkja var til forna helguð Ólafi helga og Ólafsmessa er 29. júlí.

„Veður og færð hafa unnið með okkur fram til þessa, en aðstæður nú eru óvenjulegar. Mörgum þykir auðvitað miður að komast ekki í messu í Fjörðum nú í sumar, en menn verða að láta sér næga að hlakka til sama tíma að ári liðnu og vona að þá verði messufært,“ segir sr. Bolli.

Nýjast