Löglega lagt og því lítið hægt að gera
Bíllinn hefur staðið þarna fyrir framan Laxdalshús í nokkra mánuði að minnsta kosti, mörgum til ama, segir Helgi Már Pálsson bæjartæknifræðingur á Akureyri. Eins og sést á myndinni vantar loft í dekkin og hafa margir furðað sig á því að bærinn láti viðgangast að bíllinn fái að standa svo lengi fyrir framan elsta hús bæjarins.
Þetta er vissulega ekki heppilegur staður, staðreyndin er hins vegar sú að þetta er almennt bílastæði og bíllinn er á númerum. Þess vegna er eigndanum í raun og veru heimilt að leggja bílnum svona lengi þarna. Þetta mál hefur verið rætt í bæjarkerfinu og líklegasta niðurstaðan er að stæðinu verði breytt í klukkustæði. Á meðan er lítið hægt að gera, segir Helgi.
Laxdalshús var byggt árið 1795 og þar er nú rekið veitingahús. Gestir veitingahússins hafa margir rekið upp stór augu þegar þeir sjá bílinn óhrjálega, auk þess sem íbúar í Innbænum hafa kvartað sáran. Þeir segja að rætt hafi verið við bæjaryfirvöld um að fjárlægja bílinn.
Helgi segir að rætt hafi verið við eiganda bílsins, sem verði vonandi ekki á þessum viðkvæma stað mikið lengur.