Inga Sigrún ráðin skólastjóri Valsárskóla
Inga Sigrún Atladóttir hefur verið ráðin skólastjóri við Valsárskóla í Svalbarðsstrandarhreppi.Hún er guðfræðingur og kennari og lauk meistaraprófi í stjórnun menntastofnanna frá Háskóla Íslands í lok árs 2012. Hún hefur starfað sem kennari í Reykjavík og í Sveitarfélaginu Vogum í 12 ár, þar af sem deildarstjóri í 7 ár. Hún hefur tekið mikinn þátt í félagsmálum m.a. innan kirkjunnar og ungmennahreyfingarinnar auk þess sem hún hefur verið í sveitarstjórn í Vogum við Vatnsleysuströnd í 7 ár þar af oddviti sveitarstjórnar í þrjú ár.
Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi segir Valsárskóla fámennan skóla með samkennslu nemenda. Nemendafjöldinn hefur sveiflast nokkuð frá um 80 í rúmlega 40 nemendur. Fjöldi stöðugilda breytist í takt við nemendafjöldann hverju sinni., segir hann, en á komandi skólaári 2013 til 2014 verða 47 nemendur við nám í skólanum í þremur bekkjardeildum.
Vel búið að nemendum
Jón Hrói segir að skólinn leggi áherslu á heilbrigð og heiðarleg samskipti, umhyggju fyrir samfélagi og náttúru og einstaklingsmiðað nám. Skólinn hafi undanfarin ár vakið athygli fyrir að ná góðum árangri við einstaklingsmiðun í efstu bekkjum og hafi átt í góðu samstarfi við Menntaskólann á Akureyri í námi þeirra unglinga sem ná að ljúka grunnskólanum á 9 árum.
Sveitarstjórn Svalbarðshrepps leggur áherslu á að búa sem best að nemendum Valsárskóla. Þar er boðið upp á gjaldfrjálsan mat í hádeginu, heilsdagsskóla, öflugan tónlistarskóla, útikennslu og fleira sem byggir upp heilsteypta og sterka einstaklinga, segir Jón Hrói.
Valsárskóli verður settur föstudaginn 23. ágúst klukkan 16:00 og hefst kennsla samkvæmt stundarskrá mánudaginn 26. ágúst.