Hof í samstarf við Flugfélag Íslands

Menningarhúsið Hof og Flugfélag Íslands hafa gert með sér samstarfssamning en Flugfélagið hefur verið einn af bakhjörlum Menningarhússins Hofs frá því að húsið var opnað fyrir rúmum þremur árum. Ingibjörg Stefánsdóttir, framkvæmdarstjóri Hofs, segir samstarfið gríðarlega mikilvægt og að félagið þjóni oft lykilhlutverki þegar kemur að því að gestir Hofs heimsæki Akureyri.
Það er mikið af listamönnum og aðstandendum viðburða sem fram fara í Hofi sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og góðar og þægilegar samgöngur ásamt stuttum ferðatíma er oft lykilatriði fyrir aðstandendur viðburða þegar kemur að skipulagningu. Við sjáum auðvitað líka að gestir sem heimsækja Akureyri og Hof vilja gjarnan nýta sér þennan ferðamáta og undanfarin ár höfum við séð að helgarferðir til Akureyrar eru að verða vinsælli hjá fjölskyldum, vinahópum og vinnustöðum.
Gróa Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri sölu og markaðssviðs segir forsvarsmenn Flugfélagsins stolta að fá að koma með þessum hætti að því frábæra starfi sem fram fer í Hofi. Við höfum starfað með forsvarsmönnum Hofs frá því að húsið opnaði og það er ánægjulegt að finna þann mikla meðbyr sem starfsemin þar hefur fengið. Akureyri er svo sannarlega einn eftirsóttasti áfangastaður bæði innlendra og erlendra ferðamanna utan Reykjavíkur og fjölbreytt menningarlíf á meðal annars þátt í því.
Ingibjörg segir Flugfélagið og góðar flugsamgöngur gríðarlega mikilvægar fyrir starfssemi Hofs eins og svo margra annarra fyrirtækja víðsvegar um landið sem sækja bæði starfsfólk og viðskiptavini frá höfuðborgarsvæðinu. Hún segist óttast neikvæð áhrif á bæði menningar og atvinnulíf á landsbyggðinni verði flugvöllurinn í Reykjavík fluttur úr miðborginni og ferðatími til og frá vellinum lengist. Hún segir það muni meðal annars hafa áhrif á þróun ráðstefnu og fundahalda á Akureyri.
Við fáum töluvert af fyrirtækjum og stofnunum frá Reykjavík hingað norður sem halda hér ráðstefnur, fundi og aðra viðburði. Frá því að Hof opnaði höfum við fundið fyrir talsverðri aukningu á þessu sviði á milli ára. Ingibjörg segir fyrirtæki á Norðurlandi hafa unnið vel saman að því undanfarin ár að gera Akureyri og í raun Norðurland allt að aðlaðandi kosti fyrir ráðstefnu og fundahald. Öll aðstaða og þjónusta fyrir fundi og ráðstefnur af öllum stærðum og gerðum er hér til staðar en það er fyrirsjáanlegt að ef að flugvöllurinn verður fluttur þannig að ferðatíminn lengist og ferðakostnaður eykst þá mun þetta hafa verulega neikvæð áhrif á þessi fyrirtæki og tækifæri til að byggja upp enn frekari þjónustu á Norðurlandi sem snúa að ráðstefnu og fundahaldi munu minnka í kjölfarið.