Hestamennska er lífsstíll

Andrea Margrét Þorvaldsdóttir. Mynd/Þröstur Ernir.
Andrea Margrét Þorvaldsdóttir. Mynd/Þröstur Ernir.

„Sumarið fór heldur seinna af stað hjá okkur hestamönnum og við misstum alveg af vorinu. Þannig að það hefur lítið farið fyrir ferðalögum,“ segir Andrea Margrét Þorvaldsdóttir formaður hestamannafélagsinsLéttis á Akureyri.Snjóþungur vetur hefur gert hestafólki erfitt um vik að ferðast það sem af er sumri, víðast hvar er jarðvegur enn blautur og talsvert vatn í ám. Andrea segir hestafólk taka þessu með jafnaðargeði. „Við erum útivistarfólk og höfum lært það að við ráðum ekki við náttúruna. En það er ýmislegt um að vera hjá okkur. Léttir hefur staðið fyrir mótaröð í fyrsta sinn núna í sumar þar sem keppt var öll fimmtudagskvöld. Við höldum líka Íslandsmót yngri flokka sem hefst í dag, 18. júlí. Það verða um 350 keppendur og því nokkuð stórt mót.“

Fá ferðalög

„Hins vegar hefur þetta verið slappt sumar hvað varðar hestaferðalög og ég man ekki eftir svona rólegri tíð hjá okkur í mörg ár.“ Andrea segir þreytu gæta meðal hestamanna eftir langan og strangan vetur. „Það byrjaði að snjóa af hörku strax í september og margir voru búnir að hýsa í nóvember. Það er mikil binding þannig að margir eru þreyttir og sumir eflaust komnir með leið á hestum sínum,“ segir Andrea. „En það ætti allt að fara á fullt núna seinni partinn í júlí og ef guð er góður fáum við hlýtt og gott haust. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að við ferðumst út september og jafnvel eitthvað lengur.“

Á tólf hesta

Andrea segist ríða út eins oft hún getur en sjálf á hún hvorki meira né minna en tólf hesta. „Það er töluvert mikið fyrir manneskju í fullri vinnu,“ segir Andrea og hlær. „Það þarf að sinna hrossunum og ég ríð út flesta daga, hvort sem farið er í Sörlastaði, Melgerðismela eða Mývatnssveit. Hestamennska er lífsstíll og það er mjög erfitt að vera ein í fjölskyldunni í þessu sporti. Sumir fæðast inn í hestmennsku og fá áhugan beint í æð. Það var ekki þannig hjá mér þar sem ég byrjaði ein en dró svo mömmu og pabba inn í þetta. Þau fara reyndar ekki mikið á bak en hafa verið dugleg við að sinna hestunum. Svo hef ég verið fara með frændur og frænkur á bak þannig að fjölskyldan tekur virkan þátt í þessu með mér,“ segir Andrea Margrét.

throstur@vikudagur.is

Nýjast