Hafdís íþróttamaður ársins hjá UFA
Hafdís Sigurðardóttir hefur verið valin íþróttamaður UFA árið 2013. Hafdís bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína í spretthlaupum og langstökki á Íslandi á liðnu ári. Hún setti þrjú Íslandsmet og vann fjölda Íslandsmeistaratitla. Fyrsta Íslandsmetið setti Hafdís í flokki fullorðinna í sumar er hún tvíbætti metið í langstökki kvenna og stökk 6,31 m og síðan 6,36 m. Þar með bætti hún met Sunnu Gestsdóttur frá árinu 2003 um sex sentimetra. Hún bætti svo um betur í sumar og setti einnig Íslandsmet í 60 og 300 m hlaupum kvenna.
Þá er Hafdís sexfaldur Íslandsmeistari kvenna í spretthlaupum og langstökki innan- og utanhúss á árinu 2013. Hafdís vann verðlaun sem stigahæsti (IAAF) einstaklingur á Íslandi í spretthlaupum í lokahófi FRÍ síðasta haust og stefnir að þátttöku á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.