Grímseyingar rækta grænmeti af kappi
Mér sýnist allt stefna í að uppskera verði verulega góð, þetta er toppsumar, segir Jóhann Thorarensen verkstjóri í Ræktunarstöð Akureyrarbæjar við Krókeyri. Á svæðinu er nú um 320 litlir matjurtagarðar sem standa Akureyringum til boða gegn vægu leigugjaldi, þeir eru jafnan auglýstir að áliðnum vetri og segir Jóhann að ávallt sæki fleiri um en að komist. Það er gríðarlegur áhugi meðal bæjarbúa að rækta eigið grænmeti, hann hefur ekkert dalað frá því við byrjuðum með þetta, mér sýnist hann fremur fara vaxandi ef eitthvað er.
Eyjaskeggjar áhugasamir
Eyjarnar tvær, Hrísey og Grímsey tilheyra Akureyri og þar stendur íbúum einnig til boða að rækta grænmeti í eigin garði með sömu kjörum og í bænum. Byrjað var í Grímsey í fyrravor og segir Jóhann að vel hafi til tekist og þar séu nú alls 10 ræktendur. Hann segir áhuga fyrir grænmetisrækt mikinn í eyjunni. Við vorum bara ánægðir með hvernig til tókst þarna úti við ysta haf, en höfum gert þá breytingu að Grímseyingar sem búa við enn styttra sumar en við hér inni í bænum fá nú annað útsæði en aðrir. Við höfum verið með rauðar íslenskar, en eyjaskeggjar rækta nú í sumar gullauga og premium, þær eru fljótsprottnari og eiga að henta betur, segir Jóhann.
Nánar um þetta í prentútgáfu Vikudags