Furutré ónýt eftir nag kanína
Ég held að við verðum að gera gangskör að því að hefta útbreiðslu þeirra áður en það verður óviðráðanlegt, segir Tryggvi Marinósson framkvæmdastjóri Tjald- og útilífsmiðstöðvarinnar að Hömrum á Akureyri , en þar hafa kanínur gert sig heimakomnar.
Kanínur hafa verið í Kjarnaskógi um árabil og segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga að sín tilfinning sé sú að þeim hafi undanfarin misseri farið fjölgandi. Hann segir að kanínur lifi prýðisgóðu lífi yfir veturinn og ekki væsi um þær, enda hafi þær aðgang að nægu æti.
Furutré ónýt eftir nag
Tryggvi segir að þar á bæ sé sístækkandi kanínustofn áhyggjuefni. Þetta er framandi og jafnvel ágeng tegund sem á alls ekki heima í íslenskri náttúru. Þær hafa valdið töluverðum skemmdum á gróðri á Hömrum, einkum á liðnum vetri, segir hann. Kanínur grafa holur við rætur trjáplantna og éta ræturnar með þeim afleiðingum að ungar plöntur drepast. Þá klippi þær ofan af plöntum sem standa upp úr snjó. Tryggvi nefnir að á Hömrum séu 10 til 15 ára gamlar furur nær ónýtar eftir nag þeirra í vetur.
Kanínur grafa einnig stærðarholur í tjaldflatirnar, þær valda tjóni og eru því til mikils ama, segir hann og telur að ekki sé eftir neinu að bíða, hefta verði útbreiðslu þeirra áður en það verður óviðráðanlegt.
Nánar um þetta í prentútgáfu Vikudags