Fólk á öllum aldri í strætó
Stefán Baldursson, jafnan kallaður Stebbi strætó, hefur starfað sem forstöðumaður Strætisvagna Akureyrar í um 33 ár eða frá árinu 1980. Hann segir vinsældir strætisvagna á Akureyri hafi aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Þar spili helst inn í að frá árinu 2007 hefur verið frítt í strætisvagna bæjarins. Þegar eitthvað kemur upp á er ég alltaf tilbúinn til að setjast undir stýri, segir Stefán, aðspurður um hvort hann keyri strætisvagna sjálfur. Það er misjafnt hversu oft það, en hefur verið minna undanfarið. Það kemur samt alltaf fyrir að bílstjórar sofi yfir sig eða tilkynni veikindi. Þá þarf að stökkva af stað og keyra fyrstu ferðirnar á meðan aðrir bílstjórar eru að taka sig til.
Hægt upp á við
Það hefur gefist mjög vel að bjóða upp á fríar strætóferðir á Akureyri. Fyrstu þrjú árin eftir að gjaldtaka var felld niður var mikil aukning í strætisvagna en það hefur hægt á henni síðustu ár. Engu að síður er þróunin hægt og sígandi upp á við.
-Hvernig finnst þér almennt viðhorf fólks í að taka strætó?
Ég tel það vera breytast til batnaðar. Við merkjum aukningu í strætó hjá fólki um tvítugt og yfir. Það er dýrt að reka bíl í dag og þegar fjölskylda þarf t.d. að deila einum bíl er ágætis lausn að taka strætó. Fólk kemur inn í hlýjan bíl og getur horft á umhverfið í kringum sig án þess að þurfa að hafa áhyggjur af umferðinni.