Fiskidagurinn mikli á Dalvík um helgina
Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli verður haldin á Dalvík um helgina í þrettánda sinn. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Ennfremur er allur matur og skemmtan á hátíðarsvæðinu ókeypis.
Segja má að setning hátíðarinnar hefjist með Vináttukeðjunni, hún verður hlekkjuð saman neðan Dalvíkurkirkju kl. 18:00 á morgun. Meðal þeirra sem fram koma á Vináttukeðjunni eru Matti Matt, Eyþór Ingi, Regína Ósk og Svenni, Kvartettinn Kvika, Logi Kjartansson, Gyða Jóhannesdóttir, Friðrik Ómar, karlaraddir og leikskólabörn úr Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna 2013 flytur biskup Íslands, séra Agnes M. Sigurðardóttir. 5.000 friðardúfublöðrum verður sleppt, flugeldum skotið, knúskorti og vináttuböndum dreift. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina.
Fiskisúpukvöldið er haldið í níunda sinn og í ár eru enn fleiri götur sem taka sig saman og eru með eina stóra súpustöð og þar af leiðandi er enn fleiri fjölskyldur sem taka þátt.
Á sjálfum Fiskideginum mikla, laugardeginum 10. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður margt í boði. Stundvíslega kl. 11:00, opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst. Að venju verða margir réttir á matseðlinum.
Fjölbreytt dagskrá verður á hátíðarsviðinu allan daginn og til viðbótar fjöldi fjölskylduvænna atriða vítt og breitt um hátíðarsvæðið.