Fann mína skóhillu í lífinu
Ég hef alltaf haft gaman af handverki, það hefur aldrei átt við mig að sitja inni á skrifstofu og sýsla með pappíra, segir Hólmfríður Högnadóttir skósmiður en fyrirtæki hennar og kærastans Gunnars Inga, Skósmiðurinn og álfarnir hefur keypt KB-Skósmiðju, fyrirtæki sem Kristinn Bergsson skóhönnuður stofnaði árið 1994 og er það staðsett við Lönguhlíð 20 á Akureyri.
Hólmfríður tók við rekstrinum í vor, hún stefnir á að ná sér í meistararéttindi í skósmíði syðra næsta vetur og flytja að því búnu alkomin norður á ný
KB-skósmiðja framleiðir landþekkta heilsuinniskó, vandaða vöru úr gæða leðri, en þegar fram líða stundir ætlar Hólmfríður að bæta viðgerðum á skóm við starfsemina, göngugreiningu og sjúkraskósmíði, sem hún hyggst einnig læra í nánustu framtíð.
Minum bjóða bæjarbúum góða þjónustu
Hólmfríður segist bjartsýn á reksturinn, það sé vissulega nokkuð stór biti fyrir ungt fólk að kaupa fyrirtæki og hefja rekstur, en þau hafi skoðað málið ofan í kjölinn og reiknað dæmið til enda. Þetta leggst vel í mig og við munum leggja okkur fram við að bjóða bæjarbúum góða þjónustu, segir hún.
Nánar er hægt að forvitnast um fyrirtæki hennar, Skósmiðurinn og álfarnir á vefsíðu hennar, skosmidurinn.is . Lengri útgáfu af viðtali við Hólmfríði má finna í prentútgáfu Vikudags.