Englar alheimsins í Hofi
Uppsetning Þjóðleikhússins á Englum alheimsins á liðnu vori hlaut mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda. Sýningin var tilnefnd til níu Grímuverðlauna og hlaut Grímuna fyrir leikmynd, búninga og leikverk ársins. Sýningar á Englum alheimsins hafa haldið áfram fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu í haust og nú leggur leikhópurinn land undir fót og setur Engla Alheimsins á svið í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Hofs segir það mikið tilhlökkunarefni að taka á móti leikurum og starfsfólki Þjóðleikhússins. Þetta er í annað sinn sem að Þjóðleikhúsið heimsækir Hof en á fyrsta starfsári hússins var Íslandsklukkan sýnd þar fyrir fullu húsi. Nú fáum við að taka á móti þessari frábæru sýningu sem Englar alheimsins er og það er alltaf gaman að fá að taka þátt í því að Akureyringar og Norðlendingar geti sótt vinsælar sýningar sem þessa í heimabyggð. Segir Ingibjörg.
Það verða aðeins tvær sýningar á Englum alheimsins í Hofi, föstudagskvöldið 10.janúar og laugardaginn 11.janúar. Það eru margir hlutir sem þurfa að ganga upp þegar að svona fjölmennur leikhópur leggur land undir fót en það eru tólf leikarar sem taka þátt í sýningunni auk tæknifólks. Það er alltaf svolítið púsluspil að finna tímasetningu sem hentar öllum í svona hóp þar sem að leikararnir eru margir hverjir að vinna í öðrum verkefnum samhliða sýningum á Englunum. Segir Ingibjörg.
Englar alheimsins er á meðal kunnustu skáldsagna síðari ára á Íslandi og fáar sögur hafa hitt þjóðina jafn rækilega í hjartastað. Bókin Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál. Margir muna einnig eftir vinsælli kvikmynd sem var gerð eftir efni bókarinnar með Ingvari E. Sigurðssyni í aðalhlutverki.
Í leiksýningunni er það Atli Rafn Sigurðarson sem leikur aðalhlutverkið en hann hefur hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína sem listamaðurinn Páll sem ungur að árum er illa haldin af geiðveiki og missir tökin á lífinu. Í öðrum hlutverkum eru Sólveig Arnardóttir, Ólafur Egilsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Ágústa Eva Erlendsdóttir, svo einhverjir séu nefndir. Tónlistin í sýningunni er eftir hljómsveitina Hjaltalín, en Högni Egilsson söngvari hljómsveitarinnar fer einnig með hlutverk í sýningunni.
Ingibjörg segir að það sé í mörg horn að líta þegar að leiksýning sem þessi er flutt landshluta á milli. Það er auðvitað heilmargt sem huga þarf að þegar að flytja þarf leikmynd, leikmuni og búninga á milli landshluta en það er fagfólk á öllum vígstöðvum sem hefur unnið að undirbúningi vegna þessa frá því í haust. Ég hvet allt leikhúsáhugafólk og aðra til að koma og sjá magnaða uppsetningu Þjóðleikhússins á þessari sögu sem svo margir þekkja.