Dvínandi áhugi á kristinni trú?
Ómar Torfason skrifar:
Það var einkum tvennt sem vakti athygli mína við lestur á Vikudegi frá 12. desember, viðtalið við sr. Örnu Ýr og baksíðufréttin um opnun jógastofu hér á Akureyri.
Nú er það nokkuð vitað, svo sem fram kemur í viðtalinu við sr. Örnu Ýr í miðju blaðsins, að dregið hefur úr kirkjusókn um stórhátíðir undafarin ár eða áratug, eða jafnvel úr kirkjusókn almennt, og aukin úrsögn úr kirkjunni undanfarin ár er staðreynd, hver svo sem skýringin kann að vera.
Mér þótti það hins vegar nokkuð táknrænt að andhverfa kristinnar trúar skyldi fá ríflega fyrirsögn á baksíðu blaðsins, svona til táknræns mótvægis við sr. Örnu Ýr. Tilviljanir liggja víða.
Það er ekki ætlun mín að agnúast út í eitt eða annað sem varðar trúmál, en ég hef orðið var við það í mínu starfi að menn almennt átta sig ekki á út á hvað jóga gengur, enda eru afbrigðin eða heitin mörg þótt að baki liggi sami tilgangur, þ.e. að finna og tengjast hinu guðlega í dýpsta djúpi vitundarinnar.
Leitin að hinu guðlega
Það er nokkuð þekkt fyrirbrigði, að við veiklun eða brotthvarf tiltekins samfélagsþáttar er nýr þáttur og óskyldur ekki víðs fjarri. Þannig má sjá hvernig viðhorf óskyld kristinni trú ná að skjóta rótum eftir því sem fjarar undan kirkjunni. Samfélagið lifir ekki í tilvistarskilgreinandi tómarúmi.
Nú er því haldið fram af hálfu margra innan jógageirans (t.d. www.3HO.org) að jóga teljist ekki til trúarbragða. Hins vegar, ef fyrirbrigðið hagar sér eins og önd, gengur eins og önd og kvakar eins og önd, þá er mjög sennilega um önd að ræða.
Jógaiðkandinn stefnir að því að virkja grunnþætti líkama og sálar gegnum orkumiðstöðvar líkamans (chankra) og enda í þeirri sjöundu í höfðinu, þar sem tenging á sér mögulega stað í æðra meðvitundarstigi við hið ætlaða guðlega afl allrar tilveru, mögulega í ætt við The Collective Unconscious skvt. kenningu Carls Jung.
Áherslan er leitin inn á við að hinu guðlega sem í felum og maðurinn verður að uppgötva það. Í vissum trúarbrögðum er því t.d. haldið fram að yfirguðinn Taó hafi skipt sér í öreindir og dreift í mannheimi og eftirlátið hverjum manni það hlutverk að finna andlega kubbinn í sínu lífi og mynda þannig eina lífsheild, þ.e. hina sönnu mynd Taós, með öllu mannkyninu.
Lesandinn athugi að ég er ekki að tala hér um sjálfsskoðun, eða naflaskoðun, á eigin lífi, sem er fullgild nauðsyn innan kristinnar trúar.
Kristin trú er andhverfa þeirrar hugmyndafræði sem liggur að baki jógaiðkuninni. Hún boðar persónulegan Guð, skapara mannsins, hvernig svo sem menn líta á það, og að hann sem utanaðkomandi þáttur hafi komið til mannsins honum til bjargar í hans eigin vanmætti til eilífs lífs.
Kristin trú kennir að maðurinn sé þegar frá fæðingu andhverfur Guði, það sé honum eðlislægt, og að ekkert geti bjargað honum nema lifandi samband hans við skapara sinn, hvernig svo sem það á sér stað. Því er það að þeir sem stunda jóga til æðri upplifunar og væntanlegrar fullkomnunar, eru á skjön við kristna trú, þar sem lífsspekin er gagnstæð, eða hvernig getur einstaklingur skírður til heilagrar þrenningar leitað á vit einhvers óskilgreinds,
ópersónulegs guðlegs máttar sér til guðlegrar uppfyllingar og fullkomnunar?
Höfundur býr á Akureyri.