Búast við örtröð í flugeldasölu-Þokkaleg veðurspá

Brennan við Réttarhvamm verður á sínum stað í kvöld.
Brennan við Réttarhvamm verður á sínum stað í kvöld.

Um helmingur af allri flugeldasölu hjá björgunarsveitinni Súlum á Akureyri er á Gamlársdag og því von á að fjöldi fólks leggi leið sína á flugeldamarkaðinn í dag. „Salan fór rólega af stað en við búumst við örtröð í dag. Veðrið hefur líka alltaf sitt að segja um hvort fólk versli flugelda eða ekki en spáin lítur ágætlega út,“ segir Magnús Viðar Arnarsson formaður Súlna. Opið verður í dag frá kl. 9-16 við Hjalteyrargötu 12. 

Veðurspáin er þokkaleg fyrir kvöldið á Norðurlandi; spáð er hægviðri, hita við frostmark og skýjuðu veðri með einhverri úrkomu. „Ef veðurspáin gengur eftir ætti að viðra vel til að skjóta upp og vonandi verður lítil úrkoma.“

Brenna við Réttarhvamm hefst kl. 20:30 í kvöld en flugeldasýningin hálftíma síðar eða kl. 21:00.

„Það er búið að tryggja flugeldasýninguna næstu þrjú árin með samningi við Norðurorku en það hefur verið barningur síðustu 3-4 árin að fá pening til að halda sýningu. Þá hefur undirbúningur farið seint af stað og sýningin borið keim af því. En við lofum frábærri flugeldasýningu í ár,“ segir Magnús Viðar.

throstur@vikudagur.is

Nýjast