Aðsóknarmet á Handverkshátíð

Enn eitt aðsóknarmetið var slegið á Handverkshátíð sem nú stendur yfir á Hrafnagili, en aldrei hafa jafn margir gestir sótt hátíðina fyrsta daginn sem hún er opin og raunin varð í gær, fyrsta opnunardag hennar.

Sýningin er opin um helgina frá kl. 12 til 19, en einnig er opið á mánudag frá kl. 12 til 17 og er búist við fjölda gesta á hátíðina um helgina.  Alls eru sýningarbásar um 90 talsins og er boðið upp á fjölbreytt handverk og íslenska hönnun. 

Heimilisiðnaðarfélagið heldur upp á 100 ára afmæli sitt í ár og er af því tilefni með glæsilega sýningu á Handverkshátíð. Félagið sýnir þjóðbúninga með áherslu á faldbúninginn og þá munu félagskonur kynna handverk af ýmsu tagi, s.s. knipl, útsaum, prjón og hekl.

Kálfasýning og rúningur

Fjöldi viðburða er á útisvæði, en í dag er kálfasýning á dagskránni og gestir geta fylgst með réttu handtökunum við rúning.  Búnaðarsögusafn Eyjafjarðara og Bílaklúbbur Akureyrar sýna gamla bíla og vélar á útisvæði.

Grillveisla og skemmtidagskrá verður í hátíðartjaldi í kvöld. Þar fer einnig fram verðlaunaafhending.

Nýjast