91. þáttur 25. júlí 2013

Raddgerð, raddbeiting og málhelti

Eins og glöggskyggnir lesendur hafa vafalaust tekið eftir, eru raddir fólks ólíkar, bæði í tali og söng. Raddir erfast eins og flest annað, s.s. göngulag, háralitur, litarhaft og hegðun, enda segir gamalt orðatak: „Fjórðungi bregður til fósturs“ - eða með gagnályktun: þrír fjórðu hlutar mannlegs eðlis og einkenna bregður til ættar, þ.e. gengur í erfðir. Af þeim sökum kemur ekki á óvart að raddgerð  gangi í ættir, fylgi byggðarlögum og einkenni málsamfélög. Skagfirðingar hafa ákveðna raddgerð, sem m.a. kemur fram hjá skagfirsku tenórunum, Árnesingar hafa aðra raddgerð og eru góðir bassar, svo dæmi séu tekin. Danir hafa sérstaka raddgerð Svíar aðra raddgerð en Danir og Norðmenn hafa raddgerð sem er ólík raddgerð frændþjóðanna tveggja. Slavneskar þjóðir hafa sérstaka raddgerð, Bandaríkjamenn af evrópskum ættum hafa aðra raddgerð en Bandaríkjamenn af afrískum uppruna, og Bretar af yfirstétt hafa aðra raddgerð en Kornbretar og beita rödd sinni með öðrum hætti.

Einstaklingar þekkjast einnig á röddinni. Þegar við svörum í síma, þekkjum við iðulega þann sem er á línunni og nefnum nafn hans áður en hann hefur fengið tækifæri til að kynna sig. Sumt fólk hefur bjarta rödd - sópran eða tenór - aðrir er dimmraddaðir, hafa altrödd eða bassa, sumir eru skrækróma, og enn aðrir sagðir hafa strigabassa. Þetta þekkjum við m.a. úr útvarpi og sjónvarpi, þótt engin nöfn verði nefnd. Sumt fólk er nefmælt, annað hefur klemmda rödd og sumir hafa mjúka og þægilega rödd. Þá er alkunna að reykingar og drykkja breyta rödd fólks og röddin verður mött og rám. Kórstjóri sagði mér fyrir mörgum árum að hann heyrði um leið, ef fólk reykti, og ætti það ekki síst við um konur, enda eru nokkrar konur, sem tala í Ríkisútvarpið, með matta og hljómlausa reykingarödd.

Mikilsvert er fyrir þá sem hafa atvinnu af því að tala - eða af því láta heyra í sér - að hafa fallega og þægilega rödd. Útvarps- og sjónvarpsstöðvar velja því þuli og þulur með tilliti til raddar. Má nefna BBC, þótt ekki eigi þetta við um allar útvarpsstöðvar. Stundum getur því verið þreytandi að hlusta á fréttamenn útvarps eða sjónvarps sem hafa óþægilega rödd - eru skrækróma, nefmæltir eða strigabassar. Sumir þessara fréttamanna hafa þó náð hylli hlustenda, enda er röddin ekki allt.

Annað fyrirbæri mannlegs máls er málhelti - eða það sem kallað er að vera blestur eða blæstur á máli. Sumir stama, aðrir eru smámæltir, þ.e.a.s. geta ekki sagt /s/, nokkrir eru gormæltir eða kverkmæltir, geta ekki myndað tungubrodds /r/ heldur nota gómmælt eða kverkmælt /R/, eins og flestir Danir og Frakkar - og Norðmenn frá sunnaverðum Noregi, að ógleymdum sveitungum mínum í Björgvin - fyrstu höfuðborg Íslands.

Þessir þættir málsins: raddgerð, raddbeiting og málhelti, liggja á mörkum hljóðfræði, félagsmálvísinda, mannfræði, sálarfræði og læknisfræði og eru afar heillandi - eins og flest mannvísindi.

Tryggvi Gíslason

tryggvi.gislason@simnet.is

Nýjast