90. þáttur 18. júlí 2013
Málvísindi, skólamálfræði og rétt mál
Málfræði fjallar um reglur sem taldar eru gilda í tungumálum. Málfræði er oft skipt í tvennt: forskriftarmálfræði, sem á ensku kallast normative grammar, og lýsandi málfræði, sem á ensku kallast descriptive grammar. Forskriftarmálfræði mælir fyrir um hvað er talið rétt mál og rangt, gott mál og miður gott mál, fagurt mál og ljótt mál. Forskriftarmálfræði er einnig nefnd skólamálfræði og byggist á rannsóknum hinnar lýsandi málfræði. Lýsandi málfræði er hluti af málvísindum (e linguistics), sem eru rannsóknarvísindi þar sem fengist er við skipulegar og kerfisbundnar rannsóknir á mannlegu máli í öllum sínum mikilleik, en af öllum sköpunarverkum guðs er tungumálið og mannleg hugsun það sem vekur mér mesta undrun og aðdáun - ásamt blómum vallarins, fuglum himinsins og alheimsgeimi.
Málvísindum og málfræði er skipt í undirgreinar. Nefna má hljóðfræði, sem fjallar um hvernig málhljóð eru mynduð og hljóðkerfisfræði sem fjalla um hvernig málhljóð mynda samstæður eða kerfi sem eru ólík eftir tungumálum og tungumálaflokkum. Kunnastagrein málvísinda er beygingar- og orðmyndunarfræði, þar sem gerð er grein fyrir hvernig orð eru mynduð úr rót, forskeytum, viðskeytum og beygingarendingum og hvernig orðin breytast - beygjast - s.s. í föllum, tíðum og stigum. Þessu skyld er setningafræðin sem fjallar um orðaröð og setningatengsl.
Mikilsverð grein málvísinda er merkingarfræði, sem fjallar um merkingu orða og orðhluta, en það er einmitt merking orða sem gerir málið að tjáningartæki - að lifandi félagslegu tjáningartæki sem spannar allt frá daglegu skvaldri okkar til skáldlegrar kraftbirtingar mannlegrar hugsunar í meitluðum ljóðum. Merkingarfræði heitir semantikk á erlendum málum, en það orð er dregið er af gríska lýsingarorðinu ?????????? - semantikos: merkingarbær.
Einnig má nefna greinar eins og félagsmálvísindi og mállýskufræði, þar sem kannaður er mismunur á máli milli þjóðfélagsstétta og landshluta. Söguleg málvísindi eða söguleg málfræði fjallar um breytingar á tungumálum, skyldleika þeirra og uppruna. Þetta er víðfeðm grein og stóð með miklum blóma á 19du öld og framan af hinni tuttugustu. Enn mætti nefna nýlega grein málvísinda sem kalla mætti merkingarlega textafræði (e pragmatism) þar sem reynt er að kanna mismunandi merkingu orða, orðsambanda og setninga við ólíkar aðstæður og í ólíku samhengi. Málvísindi ná því yfir víðar lendur mannfræða.
Meginverkefni forskriftarmálfræði - skólamálfræði - er að kenna nemendum og öðrum málnotendum rétt mál, gott mál og fagurt mál sem skiptir máli að mínum dómi, því að mikilsverðasta menningararfleifð Íslendinga er tungumálið sem breyst hefur minna en nokkurt annað tungumál Evrópu í þúsund ár. Ein kunnasta kennslubók í skólamálfræði er án efa Íslensk málfræði Björns Guðfinnssonar sem fyrst kom út 1937 og kennd hefur verið fram á síðustu ár. Þá ber að nefna Íslenzka málfræði handa æðri skólum eftir Halldór Halldórsson sem fyrst kom út 1950 og býr yfir miklum fróðleik fyrir áhugasama lesendur. En árangursríkasta leiðin til þess að ná tökum á móðurmálinu - og öðrum tungumálum - er að lesa eða hlusta á texta eftir skáld, rithöfunda og aðra orðlistarmenn.
Tryggvi Gíslason