26 þúsund manns á Fiskideginum
Það er mál manna að þetta hafi verið einn sá allra besti Fiskidagurinn mikli frá upphafi, segir Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Talið er að um 26.000 manns hafi sótt Dalvíkurbyggð heim um sl. helgi þar sem Fiskidagurinn mikli var haldinn hátíðlegur. Umferð og öll samskipti fólks gengu mjög vel og svo var veðrið einnig milt og gott, segir Júlíus. Á föstudagskvöldinu buðu um 130 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og yfir 100.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti á laugardeginum.